Slippurinn smíðar vinnsludekk í Hildi SH

Í Slippnum Akureyri er nú unnið að smíði vinnsludekks í fiskiskipið Hildi SH 777, sem er í eigu Hraðfrystihúss Hellissands hf. Smíðin er á lokametrunum, að því er segir á vef Slippsins, og fljótlega verður hafist handa við að koma búnaðinum fyrir um borð.
„Smíðin á vinnslubúnaðinum hefur gengið vel og við stefnum á að skipið verði klárt fyrir páska,“ segir Magnús Blöndal, sviðsstjóri DNG vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri. „Starfsfólk Hraðfrystihússins hafa lagt fram mikið af gagnlegum ábendingum í hönnunarferlinu sem skipta sköpum fyrir lokaútfærsluna."
Hildur SH 777, sem var smíðuð í Danmörku árið 2019, er 33,25 metra löng og 9,4 metra breið. „Þetta öfluga skip er sérhannað fyrir bæði tog- og dragnótaveiðar og gegnir lykilhlutverki í bolfiskveiðum fyrirtækisins,“ segir á vef Slippsins.
Magnús Blöndal til vinstri, sviðsstjóri DNG vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri og Örvar Ólafsson, útgerðarstjóri Hraðfrystihúss Hellissands.
Örvar Ólafsson, útgerðarstjóri Hraðfrystihúss Hellissands, segir miklar vonir bundnar við nýja vinnsludekkið:„ Við búumst við góðri aukningu í afköstum og betri nýtingu aflans. Samstarfið við Slippinn Akureyri hefur gengið afar vel og við hlökkum til að hefja veiðar með nýjum vinnslubúnaði,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.
Þar segir einnig:
„Fjárfestingin í nýja vinnsludekkinu samræmist framtíðarsýn Hraðfrystihúss Hellissands um sjálfbæra og hagkvæma vinnslu sjávarafurða, sem hefur einkennt starfsemi fyrirtækisins í meira en sjö áratugi. Slippurinn Akureyri hefur áratuga reynslu í hönnun og framleiðslu vinnslubúnaðar fyrir fiskiskip og leggur áherslu á gæðalausnir sem styðja við umhverfisvæna og arðbæra útgerð.“