Fara í efni
Menntamál

Rannsóknasjóður: 250 milljóna stofnframlag

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskólaráðherra, og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, á föstudaginn þegar þau undirrituðu samkomulag um fjárveitingu til að hefja undirbúning og uppbyggingu húsnæðis fyrir setrið á skólasvæðinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Verði Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst sameinaðir liggur fyrir að stofnaður verður rannsóknasjóður sameinaðs skóla. Heimildir Akureyri.net herma að stofnframlag verði 250 milljónir króna frá ráðuneyti háskólamála og að ráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hafi þegar tilkynnt rektorum beggja skóla þá ákvörðun sína.

Að öllum líkindum verða tíðindin tilkynnt opinberlega í þessari viku. Samkvæmt sömu heimildum hefur ráðherra einnig tilkynnt að ráðuneytið muni veita 200 milljóna króna styrk til að undirbúa sameiningu skólanna.

Í skýrslu stýrihóps sem mat fýsileika sameiningar skólanna og ráðherra fékk afhenta í desember, kom fram að sameining gæti orðið til þess að tækifæri til rannsókna út um land ykjust til muna og í því sambandi væri afar brýnt yrði að stofna áðurnefndan rannsóknasjóð.

Í skýrslunni kom fram að stofnfé sjóðsins myndi fást með sölu eigna á Bifröst. Ráðherra ákvað hins vegar að fara ekki þá leið, eins og Akureyri.net upplýsti í morgun. Mikil óvissa er um mögulegt söluandvirði eigna Háskólans á Bifröst, Áslaugu Örnu er að sögn mikið í mun að hægt verði að stofna sjóðinn sem fyrst og eyðir því óvissunni með þessu loforði um 250 milljóna króna framlag ráðuneytisins. 

Ráðherra mun þó ekki ætla að láta þar við sitja heldur er sögð stefna að því að hluti söluandvirðis áðurnefndra eigna á Bifröst renni  í sjóðinn auk þess sem leitað verði stuðnings atvinnulífsins sem sameinaður skóli vilji vinna náið.

Frétt Akureyri.net í morgun: 

Stofnfé sjóðs til rannsókna ekki frá sölu eigna á Bifröst