Fara í efni
Menntamál

Ítrekað skammaður fyrir fráleita vitleysu!

Hluti Akureyrarsíðu Morgunblaðsins í desember 1993 þegar sagt frá frá fjarkennslunni sem hófst í janúar. Bernharð Haraldsson skólameistari situr við tölvuna, Haukur Ágústsson er lengst til hægri og Adam Óskarsson er á milli þeirra. Rúnar Þór Björnsson tók myndina.

Um þessar mundir eru 30 ár síðan fjarkennsla hófst í Verkmenntaskólanum á Akureyri en þar var um að ræða algjört brautryðjendastarf, með þá Hauk Ágústsson og Adam Óskarsson, kennara í VMA, í fararbroddi. Haukur ýtti þessari merkilegu nýjung úr vör með því að kenna ensku í gegnum tölvupóst. Þetta er rifjað upp í skemmtilegri grein á vef skólans.

Þar segir: Bernharð Haraldsson fyrsti skólameistari VMA sagði í viðtali á heimasíðu skólans fyrir rúmum fjórum árum – sem sjá má hér – að fjarnámið hafi verið eitt af því sem hann var hvað stoltastur af að taka þátt í að koma á fót. Hugmyndin að fjarkennslunni hafi komið frá Adam Óskarssyni og Hauki Ágústssyni og hann hafi ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að tala um þegar þeir komu á hans fund með þessa hugmynd. „Ég sagði við þá: „Ég hef ekki hugmynd um hvað þið eruð að tala en ég skal styðja ykkur.“ Og þar með fór fjarkennslan af stað og við byrjuðum með fjórtán nemendur, en nokkrum árum seinna náðu þeir rúmlega sjö hundruðum! Eftir að við hófum fjarkennsluna var ég ítrekað skammaður í menntamálaráðuneytinu fyrir þessa fráleitu vitleysu. En málið var bara að það var enginn viðbótarkostnaður, nemendur borguðu námskostnaðinn, tölvurnar áttum við og húsnæðið sömuleiðis. Ráðuneytismennirnir höfðu því fátt við að styðjast þegar þeir skömmuðu okkur. Þetta var mikið gæfuspor,“ segir Bernharð.

Smellið hér til að lesa umfjöllunina á vef VMA