Húsheild-Hyrna og KEA kaupa Viðjulund 1

Byggingaráform á lóðinni Viðjulundi 1 hafa tekið á sig nýja mynd því í dag tilkynntu Skálabrún, dótturfélag KEA, og Húsheild-Hyrna um kaup á fasteignum og lóðinni að Viðjulundi 1.
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti breytingu á skipulagi í maí í fyrra, að tillögu skipulagsráðs, þar sem gert er ráð fyrir tveimur háhýsum á lóðinni og þar með að bærinn Lundur skuli víkja. Nokkur styr hefur staðið um þessi byggingaráform, meðal annars vegna hæðar þeirra húsa sem breytt skipulag gerir ráð fyrir og ekki síður að gamli bærinn Lundur verði rifinn. Því hafa samtökin Arfur Akureyrar mótmælt eins og Akureyri.net hefur greint frá, en þau mótmæli báru ekki árangur.
Endurmeta hönnunarforsendur
Í tilkynningu félaganna kemur fram að á umræddri lóð sé gert ráð fyrir rúmlega 6.000 fermetra byggingarmagni og stefnt að því að þar verði 40-50 íbúðir í tveimur fjölbýlishúsum, fimm og sex hæða háum. Þar segir einnig: „Skálabrún og Húsheild-Hyrna eru í þessu verkefni að spreyta sig á nýrri umgjörð verkefnis á þessu sviði. Farið verður yfir hönnunarforsendur á næstu vikum og sú hönnun sem þegar hefur farið fram verður endurmetin en vonast er til að það verði hægt að hefja framkvæmdir á lóðinni strax í sumar ef öll undirbúningsvinna og hönnun gengur að óskum.“
Hér má sjá hlið við hlið loftmynd af umræddu svæði eins og það er í dag og svo útlit og fyrirkomulag eins og það birtist á mynd sem fylgdi tilkynningu Skálabrúnar og Húsheildar-Hyrnu. Nokkur breyting hefur orðið á útlitinu frá þeim hugmyndum sem fram komu á síðastliðnu ári við vinnslu á breytingu deiliskipulags fyrir svæðið, meðal annars á bílastæði og inn- og útkeyrslu í bílakjallara.
Stefnumarkandi ákvörðun hjá KEA
Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður Skálabrúnar, segir KEA hafa tekið stefnumarkandi ákvörðun um að ráðstafa umtalsverðum hluta af efnahagsreikningi sínum í fasteignatengd verkefni, bæði á sviði fasteignaþróunar, útleigu atvinnuhúsnæðis og útleigu íbúðarhúsnæðis. „Það gerum við í gegnum dótturfélagið Skálabrún sem nýverið keypti 120 íbúðir af Íveru til útleigu á almennum markaði. Þetta er fyrsta fasteignaþróunarverkefnið sem Skálabrún ræðst í og það er gert í samstarfi við Húsheild Hyrnu í þetta skiptið og erum við full tilhlökkunar þar sem við erum að fikra okkur áfram inn í nýja umgjörð í fasteignaþróun þar sem fjárfestir og byggingaverktaki leggja saman krafta sína,“ er haft eftir Halldóri í tilkynningu félaganna.
Guðlaugur Arnarsson, framkvæmdastjóri Húsheildar-Hyrnu, og Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður Skálabrúnar, við undirritun samningsins.
Guðlaugur Arnarsson, framkvæmdarstjóri Húsheildar-Hyrnu, segir starfsmenn fyrirtækisins spennta fyrir þessu verkefni með Skálabrún. „Hluti af stefnumótun fyrirtækisins er fjölga verkefnum sem eru unnin á hverjum tíma, ásamt því að koma að fjölbreytttum verkefnum sem snúa að fasteignaþróun hérna á Akureyri. Viðjulundarverkefnið fellur vel að þeirri stefnu þar sem hugmyndin er að byggja fjölbreyttar íbúðir fyrir breiðan markhóp,“ segir Guðlaugur.