Fara í efni
Menntamál

Áskell sló að öllum líkindum Íslandsmet

Áskell Þór Gíslason, galvaskur hugsanlega Íslandsmethafi í námslengd!

Áskell Þór Gíslason, framkvæmdastjóri bílaþjónustu hjá Höldi, er talinn hafa slegið Íslandsmet um helgina. Hann útskrifaðist þá úr námi í matreiðslu og tók á móti skírteini því til staðfestingar við brautskráningu Verkmenntaskólans á Akureyri – 32 árum eftir að hann hóf námið!

„Ég skal svo sem ekkert fullyrða en fulltrúi skólans hélt þessu að minnsta kosti fram við brautskráninguna!“ segir Áskell og hefur greinilega gaman af, í samtali við Akureyri.net

En hvað kom til? Þetta „langa nám“ verður að útskýra.

„Mig dreymdi um að verða kokkur frá því ég var lítill. Til að gera langa sögu stutta þá var Guðmundur fóstbróðir minn og frændi frá Mýri í Bárðardal mikil fyrirmynd. Hann er nokkrum árum eldri en ég, ég var í sveit á Mýri sem strákur og af því að Gummi varð kokkur vildi ég það líka.“ segir Áskell.

Strax eftir að Áskell lauk gagnræðaskóla bankaði hann upp á hjá Hallgrími Arasyni og Stefáni Gunnlaugssyni á Bautanum og komst á samning. „Ég byrjaði að vinna á Bautanum strax eftir Gaggann, Hallgrímur var meistarinn minn og svo fór ég í Hótel- og veitingaskólann en á síðustu önninni var ég alveg að gefast upp á náminu og kláraði ekki, vegna þess að ég tók ekki tvö prófanna, í frönsku og vélritun. Löngu seinna, þegar ég seldi búð sem ég átti, Toppmenn og Sport, hugsaði ég með mér að nú yrði gaman að klára kokkanámið, tók þessi tvö fög í Verkmenntaskólanum og ætlaði í sveinsprófið í framhaldi af því. Þetta var árið 2005. Þá var ég hins vegar hvattur til þess að drífa mig í Háskólann á Akureyri, sem þá bauð upp á að fólk úr atvinnulífinu gæti hafið nám án þess að vera með stúdentspróf, og ég gerði það. Kláraði viðskiptafræði vel og vandlega árið 2008.

Þegar það rifjaðist svo upp fyrir mér að ég hafði lofað pabba, mörgum árum fyrr, að klára einhvern tíma kokkanámið, hafði ég samband við bæði VMA og Menntaskólann í Kópavogi, sem hafði tekið við náminu af Hótel- og veitingaskólanum, og kannaði hvort ég væri búinn með nógu mikið til að útskrifast úr matreiðslu. Svo reyndist vera og þess vegna útskrifaðist ég núna. Það er auðvitað dálítið sérstakt því ég hef ekki verið í tímum í VMA í mörg ár og ætlaði ekki einu sinni að mæta í brautskráninguna. Ætlaði bara að fá skírteinið sent heim, en var vinsamlega bent á að maður ætti að fagna hverjum áfanga í lífinu. Ég mætti því og tók við skírteininu og Baldvin Ringsted, brautarstjóri, hafði á orði á orði ég hefði líklega sett Íslandsmet!“

Áskell hlær og bætir við: „Ætli næsti áfangi verði ekki að taka sveinsprófið. Ég var búinn með samninginn hjá Hallgrími á sínum tíma svo ég kanna kannski hvort ég geti farið í prófið. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er!“

Bætir svo við: „Ætli boðskapurinn í þessari sögu sé ekki sá að þótt maður byrji á einhverju en hætti því svo eða fresti, er alltaf hægt að klára – meira að segja löngu seinna.“