Fara í efni
MA – VMA

Velsældarfræðin fá 61 milljón í styrk

Nýtt meistaranám í velsældarfræðum, Wellbeing Science, var eitt 19 verkefna sem hlaut styrk úr Samstarfssjóði háskóla í morgun – 61 milljón króna. Um er að ræða samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, embættis landlæknis og Surrey háskóla á Englandi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla- og nýsköpunarráðherra kynnti úthlutunina.

Í tilkynningu á vef Háskólans á Akureyri segir að velsældarhagkerfi sé notað til að lýsa sýn sem er frábrugðin hinni hefðbundu nálgun á hagkerfið út frá eingöngu efnahagslegum mælingum. Þess í stað séu velsæld og lífsgæði metin út frá fjölmörgum félagslegum og umhverfislegum þáttum jafnt sem efnahagslegum.

„Nýja meistarnámið í Velsældarfræðum er frábært tækifæri til að þjálfa næstu kynslóð leiðtoga í opinbera-, einka- og þriðja geiranum. Við þurfum nýtt hagkerfi og nýja sérfræðiþekkingu þar sem áhersla er lögð á velsæld fólks og umhverfis á sjálfbæran hátt. Með áherslum sínum á velsældarhagkerfið er Ísland því leiðandi í þeirri umbreytingu sem nú er að eiga sér stað,“ segir Lorenzo Fioramonti prófessor við háskólann í Surrey á Englandi og fyrrverandi menntamálaráðherra Ítalíu, en Surrey háskóli er einn þeirra háskóla sem standa að nýja meistarnáminu.

Á myndinni eru, frá vinstri, Brynja Björk Magnúsdóttir deildarforseti sálfræðideildar við HR, Elínar Hirst verkefnastjóri velsældarhagkerfis hjá Embætti landlæknis, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólaráðherra sem veitti styrkinn, Stefán Hrafn Jónsson forseti Fræðasviðs við HÍ og Sigurður Kristinsson deildarforseti Félagsvísinda við HA. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðstjóri lýðheilsu hjá Embætti landlæknis var fjarverandi.