Fara í efni
MA – VMA

Skólameistarar MA og VMA með „opinn huga“

Skólameistarar framhaldskólanna tveggja á Akureyri segjast báðir ganga með „opnum huga“ til vinnu með stýrihópi mennta- og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskóla landsins.

Eins og Akureyri.net greindi frá í morgun er eitt verkefna stýrihópsins að kanna möguleika á auknu samstarfi eða sameiningu Menntaskólans á Akureyri (MA) og Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA).

„Við höfum fundað með stýrihópnum og búið er að óska eftir því að gerð verði fýsileikakönnun um aukna samvinnu MA og VMA. Við viljum safna gögnum og taka ákvörðun út frá þeim,“ segir Karl Frímannsson, skólameistari MA við Akureyri.net. „Ef það þykir ekki fýsilegt að fara í aukna samvinnu tökum við ekki skrefið en þyki það eini kosturinn í framhaldi þessarar vinnu að sameina skólana þá verður það bara skoðað,“ segir Karl.

Sé mörg tækifæri

„Við göngum til þessarar vinnu með opnum huga, enda er það komið frá ráðherra að fara í þessu vinnu,“ segir Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA. „Ég sé mjög mörg tækifæri fyrir þetta samfélag með því að hafa öflugan bóknáms- og verknámsskóla á landsbyggðinni sem ákveðið mótvægi við höfuðborgarsvæðið.“

Sigríður Huld segir aðgerðirnar til komnar vegna þess að nemendum á framhaldsskólastigi fækki. „Árgangar eru minni og nemendur verða færri en með sterkara námsframboði gætum við haldið í nemendahópinn og mögulega fjölgað þeim sem vilja koma annars staðar frá í framhaldsskóla á Akureyri.“

Hún segir mjög mikilvægt fyrir nærsamfélagið að eiga öflugan framhaldsskóla á Akureyri.  „Það verður að koma í ljós hvaða ákvörðun ráðherra tekur á endanum, um samvinnu eða sameiningu, en við erum tilbúin í viðræður svo fremi hagsmunir nemenda verði látnir ráða. Allar okkar pælingar og viðræður snúast um hag nemenda og þess nærsamfélags sem þessir tveir skólar vinna í. Við leggjum áherslu á það,“ segir Sigríður Huld.

Kanna möguleika á samvinnu eða sameiningu MA og VMA

Samstarf eða sameining? Um hvað snýst um málið?