Fara í efni
MA – VMA

Hefur unnið um 1.300 stærðfræðimyndbönd

Hilmar Friðjónsson, stærðfræðikennari í VMA með meiru, hefur sett saman um 1.300 kennslumyndbönd í stærðfræði. Myndir af vef VMA.

Hilmari Friðjónssyni er ýmislegt til lista lagt. Akureyri.net hefur oft fengið að njóta afraksturs þess sem hann gerir með myndavél og linsu, til að mynda hafa hér birst myndasyrpur frá Einni með öllu og ýmsu fleiru sem gerist í bænum.

Hilmar er líka stærðfræðikennari í Verkmenntaskólanum á Akureyri og hefur af mikilli ástríðu fyrir greininni og vinnunni unnið um 1.300 myndbönd til að auðvelda nemendum skólans stærðfræðinámið. Frá þessu er sagt á vef skólans. 

Fréttin á vma.is er svohljóðandi: 

Oft hefur eitt og annað í stærðfræðinni vafist fyrir nemendum og því varð það sem Hilmar Friðjónsson, stærðfræðikennari með meiru við VMA, hóf fyrir hálfum öðrum áratug að nýta sér myndbandatæknina í stærðfræðikennslu. Til viðbótar við hinar hefðbundnu leiðir við að kenna stærðfræðina fór hann að prófa að gera stutt myndbönd sem hann gerði nemendum aðgengileg þannig að þeir gætu horft á þau aftur og aftur. Hilmari var það fljótlega ljóst að þessi nálgun skilaði sér í auknum skilningi nemenda á hinum ýmsu öngum stærðfræðinnar. Og því hélt hann ótrauður áfram á þessari braut.

Hilmar rifjar upp að hann hafi fengið innblásturinn frá Khan Academy, risastórum kennsluvef sem byggir á hugmyndafræði bandaríska stærðfræðingsins, rafmagnsverkfræðingsins og tölvunarfræðingsins Salman Khan.

Í það heila hefur Hilmar unnið um 1300 myndbönd, sem eru frá einni og upp í tíu mínútna löng. Myndböndin tengjast grunnáföngunum í stærðfræði á fyrsta og öðru þrepi. Hann segir að auðvitað hafi hann fyrst og fremst unnið þetta fyrir nemendur sína en það sé líka gott fyrir foreldra og forráðamenn nemenda, sem kunna að hafa lært efni þessara stærðfræðiáfanga, að vita af þessu í því skyni að leggja börnum sínum lið.

...

Hilmar Friðjónsson er þetta skólaár í námsleyfi og kennir því ekki stærðfræði í vetur. Honum finnst hins vegar afar mikilvægt að eftir sem áður nýti nemendur sér þessi hjálpargögn í stærðfræðinámi sínu. Og NB eru þessi kennslumyndbönd nemendum aðgengileg endurgjaldslaust.