Bæjarstjórn: traust skortir, of geyst farið
Bæjarstjórn Akureyrar telur að of geyst hafi verið farið við fyrirhugaða sameiningu eða samstarf framhaldsskólanna tveggja í bænum, VMA og MA. Hún telur að traust skorti milli aðila og leggst gegn sameiningu MA og VMA á forsendum sparnaðar. Þetta kemur fram í bókun 10 af 11 bæjarfulltrúa í dag, þar sem ráðherra er hvattur til að veita skólasamfélögunum meira svigrúm.
10 af 11 bæjarfulltrúum lögðu fram bókun í þessa veru á fundi bæjarstjórnar í dag.
Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Heimir Örn Árnason D-lista, Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista, Andri Teitsson L-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista, Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista, Gunnar Már Gunnarsson B-lista og Brynjólfur Ingvarsson óflokksbundinn óskuðu bókað:
„Við teljum einsýnt að skortur sé á trausti milli aðila, í allri umræðu um fyrirhugaða sameiningu/samstarf VMA og MA. Farið var of geyst, undirbúningi ábótavant og samráð hefði þurft að vera meira. Við leggjumst gegn sameiningu framhaldsskólanna tveggja á forsendum sparnaðar og hvetjum ráðherra til að veita skólasamfélögunum meira svigrúm til að koma saman og móta sér framtíðarsýn á eigin forsendum.“
Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista lét bóka: „Ég sem kennari í Verkmenntaskólanum á Akureyri tel mig eiga hagsmuna að gæta þar sem ég kenni á braut sem hefur átt undir högg að sækja og kýs því að bóka ekki með meirihluta bæjarstjórnar á grundvelli 5. og 6. töluliðar 3. gr. stjórnsýslulaga.“
Nokkrir bæjarbúar fylgdust með umræðum á bæjarstjórnarfundinum í dag um áformaða sameiningu MA og VMA . Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson