Fara í efni
MA – VMA

Ábyrgð og skyldur skólasamfélags

Að hafa áhrif í samfélaginu og móta líf ungs fólks fylgir ábyrgð. Að hafa völd til að breyta samfélagi fylgir ábyrgð. Að láta tækifæri renna sér úr greipum án þess að kanna þau er ábyrgðarleysi. Að hrópa á torgum til að búa til ágreining er ábyrgðarhluti.

Það er ljóst af umræðu á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum, í fjölskylduboðum, á kaffistofum og bara út um allt, að ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra um sameiningu VMA og MA hefur skapað heitar umræður í samfélaginu bæði hér Norðanlands og annars staðar. Í þessari umræðu hef ég orðið mest hugsi yfir því hve lítið þessi umræða hefur snúist um menntun til framtíðar og um leið endurspeglað þekkingarleysi fólks á framhaldsskólastarfi samtímans. Það er mikið verk framundan hjá okkur sem störfum í framhaldsskólunum að auka umfjöllun um menntun og nám en líka þær skyldur sem framhaldsskólinn hefur gagnvart öllu ungu fólki en ekki bara sumu. Það er hlutverk okkar að draga vagninn fyrir alla nemendur.

Í umfjöllun síðustu daga hefur fólk talað um það val sem ungmenni á Akureyri hafa um að geta valið á milli tveggja framhaldsskóla. En valið er bara fyrir suma. Mörg hafa raunverulegt val uppfylli þau skilyrði inn á þá námsbraut sem þau vilja komast á hvort sem það er í iðn- og starfsnámi eða á stúdentsprófsbraut. Það skiptir ekki máli hvort nemandinn hafi sótt um í VMA eða MA, inntökuskilyrði inn á brautir eru í báðum skólunum. Aðrir nemendur hafa ekki val um skóla en hafa tækifæri til að vinna sig upp eða fá einstaklingsmiðað nám í öðrum skólanum, VMA en ekki í MA. Ungmenni sem velja nám á mismunandi brautum sem vilja hittast í frímínútum eða taka þátt í söngsal geta það ekki í sitt hvorum skólanum. Hvað myndi gerast ef þessi ungmenni gætu átt samleið í sama skóla og gætu tekið þátt í félagslífi án þess að það sé merkt VMA eða MA? Ég veit að það er eftirsóknarvert hjá mörgum.

Eru nemendur VMA einungis í áfangakerfi? Nei, nemendur í iðn- og starfsnámi fylgjast að að mestu leyti allan námstímann. Á stúdentsprófsbrautum eru nemendur að mestu með sama fólkinu í þeim áföngum sem tilheyra hverri braut, sérstaklega á 2. og 3. ári eftir því sem sérhæfingin eykst. Skólinn býður upp á sveigjanleika til að ljúka stúdentsprófi á styttri eða lengri tíma en viðmið segja til um. Nemendur sem eru í iðn- og starfsnámi geta bætt við sig námi til stúdentsprófs á námstímanum eða eftir útskrift í iðn- og starfsnámi.

Eru nemendur MA alltaf með sama fólkinu í sama bekk alla sína skólagöngu? Nei, en að mestu leyti. Skólinn býður upp á þann möguleika að nemendur geti gefið sér lengri tíma til að ljúka stúdentsprófi og byggir námið upp út frá áföngum brautanna ekki bekkjum. Langflestir bekkir í bekkjarskólum í framhaldsskólum í dag taka breytingum á milli ára þar sem nemendasamsetningin breytist.

Ég upplifi að fólk þekki ekki nógu vel þessi kerfi og gefa sér forsendur sem ekki eru þær sömu og fyrir áratugum síðan. Munurinn er minni en fólk heldur á milli þeirra sem eru í bekkjarkerfi og í áfangakerfi.

Ýmsar ranghugmyndir og rangfærslur eru í umræðunnum manna á milli, sérstaklega á samfélagsmiðlum. Má þar nefna að hætta eigi hinu og þessu tengdu félagslífi og þá sérstaklega félagslífi MA. Fullyrt hefur verið að ekki verði lengur hægt að halda árshátíð né fara í menningarferðir og meira segja fullyrt að við skólameistararnir séum búin að ákveða það að enginn söngsalur gæti verið ef skólarnir verða sameinaðir. Það má heldur ekki gleyma því að fullyrt er að hittingur afmælisárganga útskrifaðra nemenda leggist af. Þetta er fjarri lagi og með ólíkindum að halda, að vilji sé til þess að henda út því sem er hluti af menningu skólanna. Þar að auki er það ekki á valdi skólameistara í neinum framhaldsskóla að hlutast til um hittinga útskrifaðra nemenda. Skólameistarar hafa nóg að gera við að sinna núverandi nemendum og námi þeirra. Og það skal jafnframt sagt að eitt af því skemmtilegasta sem ég geri í mínu starfi sem skólameistari er einmitt að hitta afmælisárganga sem heimsækja skólann. Fara í nostalgíuna, hitta vini og sjá hvernig sumt er eins og það var eða hefur breyst.

Í allri þessari umræðu um skólamál og sameiningu sakna ég umræðu um tækifæri. Það virðist sem fólk sem sér tækifæri í því að sameina skólana fái skammir fyrir það að vera ekki á móti boðaðri sameiningu. Ég sé tækifæri til framtíðar fyrir ungt fólk á Akureyri og í raun á landinu öllu þar sem báðir skólar hafa langa hefð fyrir því að vera með nemendur úr öllum póstnúmerum á Íslandi og reka sameiginlega heimavist. Tækifæri til að taka þátt í því að efla námsframboð til framtíðar. Tækifæri til að hjálpa ungu fólki að undirbúa og finna sér framtíðarnámið og framtíðarstarfið. Jafnframt er nú tækifæri til að byggja upp nýja hugsun og skipulag sem mætir þörfum framtíðarinnar. Tækifæri til að efla atvinnulíf á Norðurlandi með því að geta boðið upp á fjölbreytt iðn- og starfsnám í samræmi við þróun atvinnulífs á svæðinu. Tækifæri til að efla nýsköpun í atvinnulífinu og samfélaginu með fjölbreyttu námsframboði. Tækifæri fyrir háskóla landsins og þá sérstaklega hér á Akureyri að styðja ungt fólk til framtíðar í því námi sem tekur við eftir stúdentspróf.

Ég sé tækifæri fyrir skapandi greinar og listnám – og þá ekki síst tækifæri til að búa til frjóan farveg fyrir listalífið hér á Akureyri og um leið pressu á háskólana um að bjóða upp á nám í skapandi greinum fyrir þetta svæði. Ég sé tækifæri til að efla nám og greinar sem tengjast heilbrigði og heilsu fólks. Tækifæri til að þróa nám fyrir nemendur í stærðfræði og raungreinum í bland við tæknigreinar sem undirbúning fyrir STEM greinar í háskóla. Ég sé tækifæri fyrir starfsfólk til að eflast í starfsþróun með þróun kennsluhátta og þróun náms og kennslu til framtíðar. Tækifæri til starfsþróunar í gegnum þróunarstarf innan lands og utan. Tækifæri til að efla stoðþjónustu og velferð barna á þessu svæði. Gefa öllum tækifæri til náms og þroska í skólasamfélagi sem vex og dafnar í takt við síðbreytilegt samfélag. Að ungt fólk sé undirbúið undir framtíð með verkefnum og ábyrgð sem við vitum ekki nema að hluta til hver verða. Tækifæri til að efla ungt fólk, stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Og síðast en ekki síst tækifæri til að efla mennskuna, stuðla að jöfnuði og æfa ungt fólk í því að setja sig í spor annarra. Bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum, menningu og aðstæðum fólks.

Ég tel að það sé mikið tækfæri í því að halda áfram að vinna að markmiðum menntunar og velferðar ungs fólks til framtíðar í okkar nærsamfélagi. VMA og MA finni leiðir til að vinna saman að öflugu samstarfi eða jafnvel sameiningu. EN algjörlega á forsendum þess samfélags sem skólarnir starfa í en ekki út frá hagræðingu og sparnaði.

Ég hef fulla trú á að hægt sé að vinna áfram í samvinnu og af krafti. Það er kraftur í nemendum skólanna, það er mikil fagmennska og reynsla í hópi starfsfólks beggja skóla. Okkur þykir vænt um skólana okkar, vinnustaðina, samnemendur, samstarfsfólk og samfélagið okkar. Við verðum að muna eftir styrkleikum skólanna og gildum þeirra sem skólasamfélags og þeirri ábyrgð sem við höfum til að móta líf og nám unga fólksins okkar. Ábyrgðin er að taka samtalið áfram.

Sigríður Huld Jónsdóttir er skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri