Fara í efni
Listasafnið á Akureyri

Emmsjé Gauti vinnur lag með krökkum í Brekkuskóla

Emmsjé Gauti og nemendur í tíunda bekk í Brekkuskóla við vinnslu á glænýju lagi. Lagið verður frumflutt á RÚV á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember.

Tónlistarmennirnir Emmsjé Gauti og Vignir Snær Vigfússon eyddu gærdeginum í Brekkuskóla á Akureyri þar sem þeir unnu að nýju lagi með nemendum í 10. bekk. Afraksturinn verður sýndur á RÚV  á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember.

Forsaga málsins er sú að í haust fór af stað verkefnið Málæði á vegum List fyrir alla  (List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum). Málæði gengur út á það að hvetja unglinga landsins til þess að leika sér með íslenskuna og skapa í tali og tónum. „Verkefnið gengur út á það að listafólk og unglingar vinni saman að því að skapa á íslensku. Í ár erum við að vinna með tónlist en á næsta ári gerum við mögulega eitthvað annað,“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri Málæðis.

Emil Andri Davíðsson(t.h) og Örn Heiðar Lárusson(t.v) ásamt Emmsjé Gauta. Strákarnir sömdu lagið sem varð fyrir valinu til frekari vinnslu í höndum Emmsjé Gauta. Höfundar hinna tveggja laganna sem urðu fyrir valinu koma líka frá Norðurlandi en þeir fengu GDRN og Vigdísi Hafliða til að fullvinna sín lög. 

Þrjú lög frá unglingum á Norðurlandi

Verkefnið er í raun tvíþætt. Annars vegar samdi Bubbi Morthens lagið Sumarið ´24 og skoraði á unglinga landsins að semja texta við lagið. Hann er nú að vinna úr innsendum tillögum. Hins vegar gátu unglingarnir sent inn sín eigin lög og texta en af þeim voru þrjú lög valin til fullvinnslu með tónlistarfólki. Lögin sem urðu fyrir valinu koma öll frá unglingum á Norðurlandi, þar af frá tveimur drengjum í Brekkuskóla þeim Emil Andra Davíðssyni og Erni Heiðari Lárussyni. Hin lögin tvö sem urðu fyrir valinu komu frá unglingum á Hofsósi og Hvammstanga.

Verkefnið gengur út á það að listafólk og unglingar vinni saman að því að skapa á íslensku. Í ár erum við að vinna með tónlist en á næsta ári gerum við mögulega eitthvað annað.

 

Þ

10. bekkur SPG í Brekkuskóla ásamt tónlistarfólki og Stulla tökumanni sem var að vinna með þeim í gær. Á myndinni er einnig Harpa, verkefnastjóri Málæðis og Elva Lilja verkefnisstóri hjá List fyrir alla. 

Tónlistarfólk fullvinnur lögin

Þó Emil og Örn eigi aðalheiðurinn að laginu sem varð fyrir valinu til frekari vinnslu í höndum Emmsjé Gauta fékk allur 10. bekkur SPG að taka þátt í verkefninu. Voru krakkarnir allan skóladaginn í gær að vinna við lagið með þeim Vigni Snæ Vigfússyni og Emmsjé Gauta. „Krakkarnir semja og við lánum þeim listafólk til að stækka þeirra hugmyndir. Tónlistarfólkið hjálpar til við að þróa hugmyndirnar áfram, fer í stúdíó með hljóðfæraleikurum og klárar að fullvinna lögin,“ segir Elva Lilja Gísladóttir, verkefnastjóri hjá List fyrir alla, þegar hún er beðin um að útskýra ferlið betur. Hún segir að vinnan í Brekkuskóla hafi gengið vel, þó það hafi vissulega verið áskorun að virkja alla í bekknum þegar aðeins tveir strákar í hópnum sömdu lagið upprunalega. Krakkarnir hafi hins vegar verið hugmyndaríkir og áhugasamir, svo dagurinn tókst afar vel. „Okkur langaði að krakkarnir fengju öll að taka þátt og vinna með okkur og listamanninum, þannig að eignarhaldið sé aðeins stærra og þau séu öll að fá eitthvað út úr þessu,“ segir Elva Lilja. Þá hafi líka verið gaman fyrir krakkana að sjá hvernig tónlistarfólk vinnur og upplifa ferlið á bak við það hvernig lag er unnið. Eins sýnir verkefnið ungu fólki að það sé sannarlega hægt að starfa við list. 

Afraksturinn sýndur á Degi íslenskrar tungu

Eins og áður segir verður afraksturinn af samvinnu Emmsjé Gauta og krakkanna í Brekkuskóla  sýndur á RÚV í sjónvarpsþættinum Málæði - unglingar, íslenska og tónlist  þann 16. nóvember. Í þættinum verða líka hin tvö lögin tvö sem urðu fyrir valinu til áframhaldandi vinnslu í höndum GDNR og Vigdísar Hafliða frumflutt,  sem og lag Bubba Morthens fullklárað með texta. Þess má að lokum geta að List fyrir alla er með mörg önnur spennandi  verkefni í gangi. Til að mynda verkefnið Sögur sem miðar að því að hvetja krakka í 3.-7. bekk til þess að skrifa sögur og handrit, en í tengslum við það ferðast rithöfundar um landið og veita krökkunum innblástur.