Fara í efni
Listasafnið á Akureyri

Breyting í Þursaholti fyrir lífsgæðakjarna

Gula brotalínan sýnir skipulagsreitinn sem um ræðir. Þar stendur húsið Jötunfell við Krossanesbrautina, gegnt Hlíðarbraut, og Bárufell lengst til hægri innan reitsins. Byggingarframkvæmdir standa yfir við Þursaholt 5, 7 og 9, norðan götunnar.

Bæjarráð hefur, að tillögu skipulagsráðs, samþykkt breytta lýsingu í aðalskipulagi nyrst í hinu nýja Holtahverfi þannig að heimilt verði að byggja hjúkrunarheimili og aðra þjónustu við eldri borgara, auk íbúða, á lóð 2-12 við Þursaholt. Í breytingunni felst að heimilt verði að þróa svæðið í samhengi við hugmyndafræði um lífsgæðakjarna. Heilsuvernd ehf. sótti um lóðina þar sem fyrirtækið hefur áhuga á að koma að uppbyggingu lífsgæðakjarna.

Afgreiðslu erindis Teits Guðmundssonar, fyrir hönd Heilsuverndar ehf., hafði áður verið frestað á fundi skipulagsráðs 12. júní, en í kjölfar samtals við heilbrigðisráðuneytið ákvað Akureyrarbær að fara í breytingar á aðal- og deiliskipulagi svæðisins þannig að þar megi byggja hjúkrunarheimili ásamt íbúðum fyrir eldri borgara. Skipulagsráð og bæjarráð afgreiddu umsóknina nú í vikunni og fram undan er lögformlegt ferli við auglýsingu breytingarinnar áður en hún tekur gildi.


Lóðirnar við Þursaholt 2-12 í aðalskipulagi. 

Hvað er lífsgæðakjarni?

Hvað er átt við með hugtakinu lífsgæðakjarni? Í breyttri skipulagslýsingu sem fer nú í kynningu samkvæmt ákvæðum skipulagslaga áður en breytingin getur tekið gildi í framhaldi af afgreiðslu bæjarráða er lífsgæðakjarna lýst á eftirfarandi hátt: „Lífsgæðakjarnar eru heiti yfir húsnæði sem er einkum hugsað fyrir eldra fólk þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform, m.a. hjúkrunarheimili. Áhersla er lögð á fjölbreytta þjónustu í bland við íbúðarhúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og komið er til móts við ólíkar þarfir.“

Heilsuvernd rekur nú þegar hjúkrunarheimilin Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri.