Fara í efni
Listasafnið á Akureyri

Apar á Akureyri í upphafi 20. aldar

SÖFNIN OKKAR – 57

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Nú er tími gjafa sem eru afar fjölbreyttar. Fáir hafa fengið apa að gjöf. Það var þó raunin árið 1904.

Nýverið við skoðun á myndasafni Hallgríms Einarssonar ljósmyndara sem varðveitt er á Minjasafninu á Akureyri fannst merkileg ljósmynd. Myndin er tekin fyrir utan Sigurhæðir, hús séra Matthíasar Jochumssonar og konu hans Guðrúnar Runólfsdóttur. Myndin sýnir suðurhlið hússins og í tröppunum standa tvær konur, hægra megin er Guðrún en vinstra megin er ein dætra Matthíasar og Guðrúnar. Einnig stendur ungur maður uppi á forstofubyggingunni og er það Magnús Matthíasson, yngsta barn þeirra hjóna. En fjölskyldumeðlimir þjóðskáldsins eru ekki þau einu sem á myndinni eru, því þarna eru einnig tveir apar! Magnús Matthíasson teymir annan þeirra í bandi en hinn situr á stigahandriðinu við hlið mæðgnanna. En hvernig má það vera að tveir apar skuli vera á ljósmynd sem tekin er á Akureyri í upphafi 20. aldar?

Í nóvember árið 1903 lagði Steingrímur Matthíasson læknir, næst elsta barn þeirra Matthíasar og Guðrúnar upp í býsna langt ferðalag er hann réði sig sem skipslæknir hjá Austur-Asíu félaginu danska. Sigldi hann með skipinu Prins Valdimar næstu mánuðina og kom meðal annars við í bæði Kína og Japan og lauk ferðinni vorið 1904. 25. júní sama ár birtist í Norðurlandi greinarstúfur þess efnis að „sjaldséðir gestir“ hefðu nýverið komið til Akureyrar, en um var að ræða tvo apa frá Kína sem Steingrímur hafði sent til bæjarins. Segir í greininni að annar þeirra sé ætlaður áðurnefndum Magnúsi Matthíassyni en hinn Svafari Guðmundssyni, syni Guðmundar Hannessonar læknis. Voru aparnir hafðir saman í læknishúsinu, Spítalavegi 9. Jafnframt sagði að annar apinn væri orðinn veikur en stuttu síðar kom í ljós að ekki var um veikindi að ræða. Eðli málsins samkvæmt vöktu þessir nýju gestir mikla athygli meðal bæjarbúa og munu margir hafa lagt leið sína að læknishúsinu í von um að fá að virða þá fyrir sér. Aparnir voru látnir heita Job og Gamalíel, voru gráir að lit og fremur litlir. Hulda Á. Stefánsdóttir, sem dvaldist í læknishúsinu hluta vetrar 1906–1907, þá á tíunda aldursári minnist apana í endurminningum sínum áratugum síðar:

„Aparnir voru í stóru búri, sem stóð við hliðina á eldavélinni í eldhúsinu. Þeir voru mjög kulsælir, vanari hlýrra loftslagi en var norður á Íslandi. Á kvöldin var breidd þykk ábreiða yfir búrið til skjóls. Við krakkarnir undum oft lengi við að horfa á apana og alla þeirra skringilegu tilburði og gefa þeim hnetur, sem voru þeirra uppáhaldsmatur. Það var gaman að sjá þá bíta í sundur hneturnar og kroppa kjarnann úr þeim með litlu fingrunum og stinga upp í sig.“ (Hulda Á. Stefánsdóttir, Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur II, 32)

Ekki er vitað hversu lengi aparnir lifðu, en þeir hafa greinilega enn verið á lífi veturinn 1906–1907 og ef til vill eitthvað lengur. Þeir hafa þó verið hafðir saman í læknishúsinu þrátt fyrir að vera fyrir utan Sigurhæðir á umræddri mynd. Myndin þykir einkar merkileg þar sem áður var einungis vitað um eina mynd af öðrum apanum. Þá mynd tók Magnús Ólafsson ljósmyndari árið 1905 og sést apinn í bandi við innganginn að Spítalavegi 9. Hér er því fundin önnur mynd sem sýnir ekki aðeins annan heldur báða apana sem áttu heima norður á Akureyri í upphafi 20. aldar.