Fara í efni
Leikskólar

Neyðarstjórn virkjuð vegna heita vatnsins

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Staðan á hitaveitunni hjá Norðurorku er erfið, mjög kalt í veðri og kuldatíð fram undan. Vegna þessa var neyðarstjórn Norðurorku virkjuð fyrr í dag, en í viðbragðsáætlun hitaveitunnar kemur fram að það skuli gert þegar staðan í heitavatnstönkum nálgast öryggismörk. Þetta kemur fram í frétt Norðurorku nú fyrir stundu.  

Þar segir einnig: 

Á síðustu dögum hefur verið óskað eftir því við stórnotendur að dregið sé eins og kostur er úr heitavatnsnotkun í þeirri kuldatíð sem nú ríkir og er rétt að þakka þeim fyrir góð viðbrögð. Einnig hefur almenningur verið hvattur til að huga að sinni notkun, fara vel með heita vatnið og nýta það skynsamlega. Hér má sjá eldri frétt um málið.

Staðan í dag gefur hinsvegar tilefni til áframhaldandi aðgerða og hvatningar til ábyrgrar heitavatnsnotkunar í dag, í kvöld og fyrstu daga nýs árs. Gamlárskvöld er framundan með öllum þeim skemmtilegu hefðum og venjum sem því fylgja. Í því samhengi er rétt að minna sérstaklega á mikilvægi þess að halda varmanum inni í húsum og láta til dæmis útidyr ekki standa opnar.

Um leið og við óskum ykkur öllum gleðilegs árs með þökk fyrir það liðna bendum við á að hér má finna fleiri góð ráð til ábyrgrar orkunotkunar.