Leikskólar
Mikilvægur áfangi fyrir ME-sjúklinga
16.08.2024 kl. 12:30
Heilbrigðisráðherra og forstjórar Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands undirrita í dag samtarfsyfirlýsingu um stofnun Akureyrarklíníkurinnar.
Í dag næst langþráður áfangi í baráttu fyrir bættri þjónustu við fólk með ME sjúkdóminn og langvarandi eftirstöðvar covid 19 þegar heilbrigðisráðherra og forstjórar Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands undirrita samstarfsyfirlýsingu um stofnun Akureyrarklíníkurinnar, þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar um þessa sjúkdóma. Formleg stofnun Akureyrarklíníkurinnar fer fram í Kvosinni í MA og hefst kl. 14. Flutt verða nokkur stutt erindi auk áðurnefndrar undirritunar.
Akureyri.net fjallaði snemma árs 2023 um ME sjúkdóminn og langvarandi eftirstöðvar covid 19 þegar mikils metinn sænskur læknir og vísindamaður, Jonas Bergquist, heimsótti Akureyri í tengslum við erindi sem hann hélt á læknadögum. Jonas hefur beint sjónum sínum að langtíma eftirköstum covid-19 með sérstakri áherslu á hliðstæður og tengsl við Myalgic encephalomyelitis, betur þekkt sem ME-sjúkdómurinn, en hann er í stuttu máli krónískur þreytusjúkdómur sem getur valdið mikilli skerðingu á lífsgæðum. Um ræðir flókinn sjúkdóm sem á sér margs konar birtingarmyndir og getur valdið mörgum og mismunandi einkennum hjá sjúklingum.
Friðbjörn Sigurðsson, læknir við Sjúkrahúsið á Akureyri og mikill baráttumaður fyrir stofnun Akureyrarklíníkurinnar, og Jonas Bergquist, sænskur læknir og vísindamaður sem flutti erindi á læknadögum í fyrra og heimsótti Akureyri meðal annars til að fræðast um Akureyrarveikina svokölluðu. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Ástæða heimsóknar hans til Akureyrar var meðal annars möguleg tengsl hinnar svokölluðu Akureyrarveiki við það sem síðar var formlega nefnt ME. Friðbjörn Sigurðsson, læknir við Sjúkrahúsið á Akureyri, átti þátt í þessu viðtali við Jonas enda hefur Friðbjörn verið einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir stofnun Akureyrarklíníkurinnar.
Til fróðleiks eru hér krækjur á fyrri umfjöllun Akureyri.net um ME sjúkdóminn og væntanlega Akureyrarklíník.
- Hvað getur Akureyrarveikin kennt okkur um eftirköst COVID-19?
- Hvar er miðstöðin í þágu ME-sjúklinga?
- Ekkert fé fylgdi ákvörðun ráðherra
- Akureyrarklíníkin: Fjármagn til reiðu í ár
- Akureyrarklíníkin - Friðbjörn Sigurðsson
- Akureyrarklíníkin að komast á rekspöl
Fram kemur í kynningu á viðburðinum í dag að hluti þeirra sem fengu covid-19 glími við eftirstöðvar með einkennum sem líkjast ME. Með stofnun Akureyrarklíníkurinnar er ætlunin að efla þjónustu við einstaklinga með ME og langvarandi eftirstöðvar covid-19, stuðla að samfélagslegri vitundarvakningu, standa að skráningu og nýta tækifæri til rannsókna. Akureyrarklíníkinni er ætlað að hafa samhæfandi hlutverk á landsvísu og leiða samstarf Landspítala og annarra aðila sem sinna ME sjúklingum, til að mynda endurhæfingarstofnunum og sérfræðilækna á stofum.