Leikskólar
Íslandsmeistarar í hálfu maraþoni á Akureyri
05.07.2024 kl. 20:30
Myndir: Ármann Hinrik
Andrea Kolbeinsdóttir og Arnar Pétursson urðu Íslandsmeistarar í hálfmaraþoni á Akureyri í gærkvöldi þar sem hið árlega Akureyrarhlaup UFA fór fram. Íslandsmótið í greininni var hluti þess hlaups.
Akureyrarhlaupið hefur verið árviss viðburður í rúm 30 ár, fór fyrst fram árið 1992. Keppendur í gær voru 170 og á öllum aldri; sá yngsti var átta ára en sá elsti 68 ára. Keppt var í þremur vegalengdum 5 km, 10 km og 29 km – hálfmaraþoni. Flestir hlupu 10 km.
Andrea Kolbeinsdóttir og Arnar Pétursson, Íslandsmeistarar í hálfmaraþoni, hlaupandi á Akureyri í gær.
Besti tími Andreu
Sigurvegarar í hálfmaraþoni og jafnframt Íslandsmeistarar í greininni 2024 eins og áður sagði voru Andrea Kolbeinsdóttir úr ÍR, sem hljóp á 1:15:59 klst, sem er hennar besti tími til þessa og Arnar Pétursson, Breiðabliki, sem hljóp á 1:09:07. Þátttakendur í hálfmaraþoni voru 30, 20 karlar og 10 konur.
Halldóra Huld Ingvarsdóttir var önnur kvenna á 1:19:47 og Íris Anna Skúladóttir þriðja á 1:24:11. Báðar eru úr FH. Stefán Kári Smárason, Breiðabliki, var annar karla á 1:13:30 og Akureyringurinn Jörundur Frímann Jónasson úr UFA þriðji á 1:13:52
Mjög góður tími Önnu Berglindar
Þátttakendur í 10 km hlaupinu voru 79. Anna Berglind Pálmadóttir úr UFA sigraði í kvennaflokki á 37:40 sem er jafnframt besti árangur sem náðst hefur í þeirri vegalengd í flokki 45-49 ára kvenna. Önnur varð Hulda Fanný Pálsdóttir úr FH á 40:16 og þriðja Linda Heiðarsdóttir úr ÍR á 44:28.
Guðmundur Daði Gunnlaugsson úr Ungmennafélagi Njarðvíkur sigraði í karlaflokki á 34:48 mín., annar var Guðni Siemsen Guðmundsson, Fjallahlaupaþjálfun, á 36:01 og þriðji var Ásgeir Daði Þórisson, Vængjum Júpíters, á 36:11.
Brautarmet Sigþóru Brynju
Þátttakendur í 5 km hlaupinu voru 63. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir UFA var fyrst kvenna á 17:54 mín. sem er jafnframt brautarmet. Önnur var Arna Sól Sævarsdóttir UFA á 20:14 og þriðja Sigríður Rúna Þoroddsdóttir á 22:11.
Stefán Pálsson úr Ármanni var fyrstur karla á 17:27, annar var Róbert Rafn Birgisson, Laugaskokki, á 18:59 og þriðji var Stefán Viðar Sigtryggson úr Hlaupahópi Hornafjarðar á 20:52.
Smellið hér til að sjá öll úrslit Akureyrarhlaupsins í gær