Fara í efni
Landsbankahúsið við Ráðhústorg

„Ökumenn misnota vörulosunarréttinn“

Ólafur Ásgeirsson, þáverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri, skrifaði grein í Dag 15. desember 1992 þar sem honum fannst nóg um hvernig ökumenn túlkuðu undanþágur frá akstursbanni um Göngugötuna. Skjáskot af timarit.is.

Frá 1983 og fram eftir tíunda áratugnum má segja að göngugata hafi að mestu verið réttnefni, þó bent hafi verið á að ýmsir hafi túlkað hugtakið vörulosun nokkuð frjálslega. 

Hér er haldið áfram að rifja upp sögu Göngugötunnar.

1992 - Túlkuðu vörulosun frjálslega

Frá 1983 og fram eftir tíunda áratugnum má segja að göngugata hafi að mestu verið réttnefni, þó bent hafi verið á að ýmsir hafi túlkað hugtakið vörulosun nokkuð frjálslega. Lýsingar Ólafs Ásgeirssonar, þáverandi aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Akureyri, í Degi 15. desember 1992 benda til þess að ýmsir hafi túlkað akstursbann í götunni nokkuð frjálslega.

  • Ólafur bendir á að við innkeyrsluna í götuna hafi verið sett upp merki sem sýndi að allur akstur um hana væri bannaður. Undir bannmerkinu stæði svo: „Gildir ekki um vörulosun og umferð sjúkra og hreyfihamlaðra.“ Hins vegar virðast einhverjir í kaupmannastétt hafa túlkað vörulosun nokkuð frjáslega miðað við orð Ólafs.
  • „Það er margra skoðun að t.d. kaupmenn við götuna séu kærulausir með sína eigin bíla í götunni og leggi þeim oft fyrir framan verslanir sínar. Þegar svo lögreglan ætlar að hafa afskipti af þeim segjast þeir vera að losa vörur í verslunina. Með vörulosun er ekki átt við bréf og litla pakka, heldur er átt við þannig hluti að illmögulegt sé að koma þeim með öðrum hætti en á bílum,“ skrifar Ólafur.
  • Lögreglumenn fengu alls konar skýringar og stundum voru ökumenn ósáttir við afskipti lögreglunnar í göngugötunni. Byggingarframkvæmdir flæktu líka málið aðeins. Ólafur nefndi einnig Ráðhústorgið og sagði marga „ökumenn misnota vörulosunarréttinn svo og vanvirða þeir torgið okkar með því að vera að leggja bílum þar.“
  • „Lögreglumenn hafa haft afskipti af mörgum sem aka um götuna. Þeir hafa fengið hin ýmsu svör þegar spurt er um erindi í götuna og margir hafa brugðist ókvæða við þessum afskiptum lögreglunnar. Þegar verið var að byggja hið nýja og glæsilega verslunarhús í götunni þurftu t.d. margir iðnaðarmenn að leggja bílum sínum þar fyrir framan nýbygginguna og mörgum þeirra fannst afskipti lögreglunnar af bílunum vera alls ónauðsynleg því allir þóttust vera að aka áhaldakistum sínum að byggingunni.“


Úrklippa úr Degi 15. desember 1992, bls. 6.

Þegar leið á tíunda áratuginn fór þrýstingur kaupmanna í miðbænum á bæjaryfirvöld að leyfa umferð ökutækja um götuna að aukast.

1995 - Skorað á bæjaryfirvöld

  • Frá því er sagt í Degi 22. júlí að Arnór Karlsson, eigandi blómabúðarinnar Laufáss, Vilhelm Ágústsson, áhugamaður um betri miðbæ, og Flosi Jónsson gullsmiður hafi afhent Jakobi Björnssyni, þáverandi bæjarstjóra, bréf og undirskriftalista fyrir hönd 29 verslunareigenda og hagsmunaaðila í miðbænum þar sem þess er farið á leit að umferð verði aftur hleypt á göngugötuna og nágrenni.
  • Í fréttinni segir meðal annars: „Ástæður fyrir þessari tillögu segja bréfritarar vera þær að verslanir við göngugötuna hafi liðið fyrir það hve viðskiptavinum er gert erfitt að nálgast þær; bílastæði séu langt frá og oftast upptekin af starfsfólki miðbæjarins. Við afhendinguna sagðist Vilhelm hafa af því þungar áhyggjur að miðbærinn væri deyjandi, og lífið hefði færst í úthverfi bæjarins.“

Frétt í Degi 22. júlí 1997, bls. 3. Miðbæjarkaupmenn útbjuggu kort sem sýndi þær akstursleiðir sem þeir lögðu til að yrðu leyfðar.

1996 - Breytingar kosta

  • Morgunblaðið segir frá því 13. nóvember 1996 að tilraun sem þá var í undirbúningi, að leyfa umferð ökutækja um göngugötuna á vetrarmánuðum, kallaði á breytingar sem kostuðu 1,5 milljónir króna á þáverandi verðlagi. Ekki var eining um að hefja tilraunina í upphafi jólaumferðar þegar hvað mest líf er að jafnaði í götunni, að sögn Gísla Braga Hjartarsonar, bæjarfulltrúa Alþýðuflokksins og formanns skipulagsnefndar.


Úrklippa úr Morgunblaðinu 13. nóvember 1996, bls. 14.

  • Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 19. nóvember 1996 var, að tillögu bæjarráðs, samþykkt að verða við erindi kaupmanna við göngugötuna að gera tilraun með að opna götuna fyrir umferð ökutækja fram á vorið. Langar umræður urðu um málið að því er fram kemur í frétt í Degi-Tímanum. Í fréttinni er áhugaverð yfirferð á umræðum í bæjarstjórn um málið.
  • Opnun göngugötunnar fyrir bílaumferð var samþykkt með sjö atkvæðum gegn tveimur, tveir bæjarfulltrúar sátu hjá.


Úrklippa úr Degi-Tímanum 20. nóvember 1996, bls. 3. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að hleypa bílaumferð á göngugötuna.

1997 - Tilraun með umferð ökutækja

Tilraun var gerð með að opna göngugötuna fyrir umferð vélknúinna ökutækja frá 15. janúar til 31. maí 1997, en þá ákveðið að halda ekki áfram á þeirri braut.

  • Frá 15. janúar til 31. maí árið 1997 var í tilraunaskyni leyfð umferð ökutækja um Hafnarstrætið, göngugötuna. Var hún þá lengur göngugata? Morgunblaðið sagði hins vegar frá því 16. maí að tilraunin yrði ekki framlengd.
  • Gatan var þá skilgreind sem vistgata sem í orði að minnsta kosti þýðir að þó umferð ökutækja sé leyfð á hægfara umferð (gangandi, hjólandi, hjólabretti) að hafa forgang. Áhugavert er að velta fyrir sér og bera saman ákvæði umferðarlaga um vistgötur og raunveruleikann í samspili gangandi og akandi í Hafnarstrætinu.
  • Í 7. grein umferðarlaga nr. 50/1987 segir um vistgötur:
    • Ákvæði greinar þessarar gilda um umferð á svæði, sem afmarkað er með sérstökum merkjum, sem tákna vistgötu.
    • Heimilt er að dveljast og vera að leik á vistgötu. Þar ber að aka mjög hægt, að jafnaði eigi hraðar en 15 km á klst. Ef gangandi vegfarandi er nærri má eigi aka hraðar en á venjulegum gönguhraða.
    • Ökumaður skal sýna gangandi vegfaranda sérstaka tillitssemi og víkja fyrir honum. Gangandi vegfarandi má eigi hindra för ökutækis að óþörfu.
  • Flosi Jónsson gullsmiður sagði kaupmenn ekki ósátta við lokun götunnar yfir sumarmánuðina, en fram kom að nauðsynlegt væri að endurhanna götuna ef leyfa ætti umferð ökutækja. Til dæmis kvartaði fólk yfir því að ekki væru nægilega mörg bílastæði í götunni. Því yrði að breyta ef umferð yrði leyfð í framtíðinni.


Úrklippa úr Morgunblaðinu 16. maí 1997, bls. 14.

1999 - Kaupmenn heimtuðu bíla!

  • Kaupmenn heimtuðu bíla í göngugötuna að því er sagði í fyrirsögn Gylfa Kristjánssonar blaðamanns á DV á Akureyri 7. desember 1999. Vitnað er í Ingþór Ásgeirsson, þáverandi formann Miðbæjarsamtakanna á Akureyri. „Við gerum þá kröfu að umferð bifreiða verði að nýju hleypt á Hafnarstrætið, þar sem nú er göngugata, og höfum nefnt það á öllum stöðum sem þarf að nefna það á, t.d. við bæjarstjórn og bæjarstjóra, skipulagsnefnd og arkitektana sem eru að vinna að teikningum að breytingum á göngubötunni og Ráðhústorginu," sagði Ingvar í desember 1999.
  • Þar er einnig vitnað í Vilborgu Gunnarsdóttur, þáverandi formann skipulagsnefndar bæjarsins, sem segir meðal annars að ljóst sé að krafan af hálfu kaupmanna sé mjög sterk. Þeim skilaboðum hafi verið komið til arkitektanna sem unnu að tillögum um breytingar á göngugötunni og Ráðhústorginu að í einhverjum tillagna sinna geri þeir ráð fyrir bílaumferð á svæðinu.


Úrklippa úr DV 7. desember 1999, bls. 4. Kaupmenn vissu hvað þeir vildu!

  • Í ljósi umræðunnar um Reykjavíkurflugvöll í dag vekur nafnlaust lesendabréf í DV 10. desember 1999, skrifað af Reykvíkingi, nokkra kátínu. Reykvíkingur þessi skrifar: „Með tilvísun til þess að Akureyringar eru að sletta sér fram í flugvallarmál Reykvíkinga leyfist mér að skipta mér af göngugötunni þeirra, og það í fullri vinsemd.“
    • Viðkomandi vísar til þess að Kaupmannafélag Akureyrar virðist þeirrar skoðunar að eigi kaupmenn í gamla miðbænum að eiga möguleika skuli bæjaryfirvöld opna aftur göngugötuna, kaupmenn hafi áhyggjur af samkeppni sem þeir fá í nýju „molli“ í gömlu Sambandsverksmiðjunum (Glerártorg).
    • Reykvíkingi þessum finnst fáránleg hugmynd að opna göngugötuna. „Göngugata Akureyringa er til fyrirmyndar og friðsæll og skemmtilegur staður í bænum þeirra sem ég heimsæki alltaf þegar ég er á Akureyri. Göngugatan er sú eina sinnar tegundar á Íslandi og vel heppnuð framkvæmd. Bæjarstjórn ætti að skella skollaeyrum við þessum þrýstingi lafhræddra kaupmanna,“ skrifar þessi Reykvíkingur í lesendabréfi 1999.


Úrklippa úr DV 10. desember 1999, nafnlaust lesendabréf sem „Reykvíkingur“ skrifar.

Kaupmenn fengu vilja sínum framgengt að lokum og gatan var opnuð fyrir umferð, en eins og fram kom í frétt akureyri.net eftir umfjöllun umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar á dögunum var hún ekki hönnuð til að taka við allri þessari bílaumferð. Nánar um það í þriðja og síðasta hluta þessarar upprifjunar.

  • Á MORGUN – UMFERÐ HLEYPT Á – HÖNNUÐ FYRIR GANGANDI