Fara í efni
Landsbankahúsið við Ráðhústorg

Íslandshótel og Skógarböðin hafa slitið samstarfi

Teikning sem birt var fyrr á árinu, af hótelinu sem stendur til að reisa steinsnar frá Skógarböðunum við rætur Vaðlaheiðar.

Íslandshótel og Skógarböðin hafa slitið samstarfi um uppbyggingu og rekstur hótels við Skógarböðin í Eyjafirði sem áætlað var að opna á vormánuðum 2026. Eigendur Skógarbaðanna halda þó ótrauðir áfram og leita nýrra aðila til þess að reka hótelið.

Viljayfirlýsing um samstarf var undirrituð í ársbyrjun en reiknað var með fjárfestingu upp á um fimm milljarða króna.

Viðræður Íslandshótela og eigenda Skógarbaðanna um byggingu og rekstur hótelsins hafa staðið yfir síðustu mánuði og slitu Íslandshótel því samstarfi í lok júlí, að því er segir í tilkynningu.

„Þrátt fyrir góða samvinnu teljum við að of mikið beri í milli hvað hugmyndir um framhaldið varðar og því sé ekki grundvöllur fyrir frekara samstarfi af okkar hálfu,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela.

„Hlutirnir gengu ekki jafn hratt fyrir sig og vonast var eftir. Byggingarleyfi og annar undirbúningur dróst en við höldum okkar striki og okkar markmið er eftir sem áður að reisa glæsilegt hótel við Skógarböðin,“ segir Sigríður María Hammer, stjórnarformaður Skógarbaðanna.

Skógarböðin leita nú að nýjum samstarfsaðila, bæði fjárfestum fyrir fasteign og rekstraraðilum hótels, en Íslandshótel munu setja aukinn kraft í önnur spennandi verkefni, þar á meðal byggingu nýs hótels á svokölluðum Sjallareit á Akureyri.

Fréttir Akureyri.net: