Fara í efni
Körfuknattleikur

Þórsstelpurnar töpuðu í Njarðvík

Jovanka Ljubetic og Eva Wium Elíasdóttir í sigurleik gegn Keflvíkingum fyrr í vetur. Eva var langatkvæðamest í leik liðsins gegn Njarðvík í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsstelpurnar í Subway-deildarliði félagsins í körfubolta mættu liði Njarðvíkur í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gærkvöld. Heimakonur unnu öruggan sigur.

Leikurinn var jafn á upphafsmínútunum og skiptust liðin á að leiða, en um miðjan fyrsta leikhluta fór að draga sundur og Njarðvík vann leikhlutann með 12 stiga mun. Þórsliðið vann annan leikhluta með fjögurra stiga mun með góðum lokakafla og staðan 39-31 eftir fyrri hálfleikinn. Njarðvíkingar héldu þó áfram öruggu forskoti og bættu í þegar leið á þriðja leikhlutann og í lok leiks, niðurstaðan að lokum 27 stiga sigur Njarðvíkinga.

Gangur leiksins: Njarðvík - Þór (26-14) (13-17) 39-31 (23-16) (22-10) 84-57.

Eva Wium Elíasdóttir var langsprækust Þórsara í leiknum, skoraði 25 stig, tók þrjú fráköst og átti sjö stoðsendingar. Erlendu leikmenirnir höfðu hægar um sig í stigaskorun en oftast áður, Maddie Sutton skoraði 12 stig og tók 13 fráköst og Lore Devos skoraði níu stig og tók sex fráköst. 

Stig/fráköst/stoðsendingar: Eva Wium Elíasdóttir 25/3/7, Maddie Sutton 12/13/2, Lore Devos 9/6/4, Hrefna Ottósdóttir 8/0/1, Jovanka Ljubetic 2/2/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 1/3/1, Karen Lind Helgadóttir 0/2/0.

Þór er áfram í 5. sæti Subway-deildarinnar með sjö sigra í 13 leikjum. Næsti leikur liðsins hefði átt að vera heimaleikur gegn Breiðabliki næstkomandi þriðjudag, en skömmu fyrir jól ákváðu Blikar að draga lið sitt úr keppni. Það eru því tæpar tvær vikur í næsta leik, sem einnig er útileikur þegar Þórsstelpurnar fara í Hafnarfjörðinn og mæta liði Hauka sem sitja í 6. sætinu með fimm sigra í 12 leikjum.