Fara í efni
Körfuknattleikur

Þór/KA og Þór bæði með heimaleiki í dag

Það er nóg framboð af dægradvöl fyrir knattspyrnuáhugafólk á Akureyri í dag. Leikur á Greifavellinum (KA-velli) kl. 14 og VÍS-velinum (Þórsvelli) kl. 16. Þór/KA er að hefja leik í efri hluta Bestu deildarinnar og Þórsarar munu berjast fyrir stigum í dag til að fjarlægjast botnliðin.

Fyrri leikur dagsins er leikur Þórs/KA og FH í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar kvenna. Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar með 30 stig og FH í 5. sæti með 25 stig. Hvorugt liðið hefur að neinu að keppa í sjálfu sér, öðru en því að enda eins hátt í töflunni og mögulegt er. Þór/KA á ekki möguleika á að ná toppliðum Breiðabliks og Vals og því enginn möguleiki á titli né Evrópusæti, en óhætt að reikna með því að stelpurnar og þjálfarar stefni að því að gefa allt í það að vera áfram í 3. sætinu. 

Leikurinn fer fram á Greifavellinum og hefst kl. 14. Nánar má lesa um leikinn í dag í upphitunarpistli á vefsíðu Þórs/KA.

Mikilvæg stig í boði í Þorpinu

Seinni leikur dagsins er næstsíðasti heimaleikur Þórsara í Lengjudeild karla þetta árið. Það eru ÍR-ingar sem koma norður, en þeir eru í harðri baráttu um að komast í umspilssæti (2.-5.) í Lengjudeildinni þar sem fjögur lið munu berjast um sæti í Bestu deild karla að ári. Það hefur hins vegar verið bras á Þórsurum sem eru komnir niður í 10. sæti deildarinnar með 19 stig, en þó enn sex stigum meira en liðin tvö sem sitja í fallsætunum, Grótta og Dalvík/Reynir. Eftir leikinn í dag eiga Þórsarar einmitt eftir að mæta þessum tveimur liðum, Dalvík/Reyni á heimavelli 8. september og Gróttu á útivelli 14. september. Tveir leikmenn Þórs eru í leikbanni í dag, Aron Kristófer Lárusson, vegna sjö áminninga, og Ýmir Már Geirsson, vegna fjögurra áminninga.

Leikurinn fer fram á VÍS-vellinum (Þórsvelli) og hefst kl. 16.

Bæði félögin, Þór/KA og Þór, hafa auglýst upphitun með hamborgurum og tilheyrandi fyrir leiki dagsins. Hvað sem öðru líður ætti knattspyrnuáhugafólk að minnsta kosti ekki að þurfa að kvíða hungri þegar líður á daginn. Vonandi verður í leiðinni hægt að seðja hungrið eftir stigum.