Fara í efni
Körfuknattleikur

Þór mætir Álftanesi í bikarleik í kvöld

Bandaríski leikmaður Þórs, Tim Dalger, í leik gegn Sindra á dögunum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Karlalið Þórs í körfuknattleik fær ekki langa hvíld eftir skellinn sem liðið fékk á Akranesi á föstudagskvöldið því í kvöld taka Þórsarar á móti liði Álftaness í 1. umferð bikarkeppninnar, VÍS-bikarsins. Leikurinn fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og hefst kl. 19:15.

Það vill reyndar svo til að bæði liðin eru í svipaðri stöðu í sinni deild. Þórsarar eru enn án sigurs í 1. deildinni eftir þrjár umferðir og Álftnesingar eru einnig án sigurs í efstu deild, Bónusdeildinni, eftir þrjár umferðir. Álftanes er á sínu öðru ári í efstu deild. Það verður því forvitnilegt að sjá hvernig Þórsurum tekst að stíga upp úr vonbrigðaframmistöðu á Akranesi á föstudagskvöldið og hvernig Álftnesingar mæta til leiks eftir þrjú töp í Bónusdeildinni.

Að loknum leikjum 1. umferðar í bikarkeppni karla verður dregið í næstu umferð og þá einnig í 1. umferð bikarkeppni kvenna þar sem silfurlið Þórs verður að sjálfsögðu í pottinum.