Fara í efni
Körfuknattleikur

Sögulegir yfirburðir Þórs gegn Njarðvík

Ohouo Guy Landry Edi var öflugur í fyrsta heimaleiknum með Þór. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Þórsarar fóru á kostum gegn Njarðvíkingum í Domino's deildinni í körfubolta í dag. Leikið var í íþróttahöllinni á Akureyri og Þórsarar unnu með 22 stiga mun, 90:68, sem segir þó ekki alla söguna því yfirburðirnir voru miklu meiri. Munurinn var til dæmis 30 stig, 74:44, þegar þriðja leikhluta lauk og Njarðvíkingar gerðu ekki 50. stigið fyrr en fjórar og hálf mínúta var eftir af leiknum. Mér er til efs að það hafi gerst síðustu áratugi.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi var sem hér segir: 24:14 – 31:15 – (55:29) – 19:15 – 16:24 (90:68)

Leikurinn var í jafnvægi fyrstu mínúturnar en eftir að Þórsarar gerðu 10 stig í röð og komust í 20:10 var tónninn gefinn. Liðið kom gríðarlega einbeitt til leiks; Þórsarar ætluðu greinilega ekki að endurtaka frammistöðuna frá því á Egilsstöðum á fimmtudaginn, þegar þeir töpuðu fyrir Hetti og léku afleitlega.

Samheldnin var áberandi mikil í dag og baráttan í fyrirrúmi. Enn einu sinni sýndi sig í dag hve varnarleikur er mikilvægur eins og í fleiri íþróttagreinum. Þórsarar voru hreinlega frábærir í vörn, Njarðvíkingur áttu í miklum erfiðleikum og svo „heppilega“ vildi til að þegar þeim tókst að komast í góð skotfæri var hittnin ekki góð.

„Munurinn var einfaldlega sá að nú mættum við tilbúnir frá fyrstu mínútu,“ segir Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, þegar Akureyri.net spurði um ótrúlegan á liðinu í kvöld og gegn Hetti. „Að sama skapi má jafnvel segja að Njarðvíkingarnir hafi virkað hálf áhugalausir.“ Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, Njarðvíkurliðið var að minnsta kosti mjög langt frá sínu besta, en hafa verður í huga hið margkveðna, að enginn leikur betur en andstæðingurinn leyfir.

Bjarki var augljóslega mjög ánægðir með sína menn, og má vera það. Honum finnst liðið hafa tekið framförum á undanförnum viku. „Ég er himinlifandi með leikinn. Varnarleikurinn var til fyrirmyndar, ég er ánægðastur með baráttuna í liðinu og hvernig við unnum hver fyrir annan,“ sagði hann.

Fílabeinsstrendingurinn Guy Landri Edi kom aðeins við sögu á Egilsstöðum á fimmtudaginn en lék nú í fyrsta skipti með Þórsliðinu á heimavelli. Kraftmikill leikmaður og greinilega ekkert lamb að leika sér við. Bjarki er ánægður með hann: „Landri Edi er frábær körfuboltamaður sem á eftir að hjálpa þessu liði helling. Hann klárlega breikkar hópinn, færir liðinu reynslu og ákveðna dýnamík sem okkar hefur vantað. Hann á eftir að slípast betur til og verður stór hlekkur í okkar liði þegar fram líða stundir,“ sagði Bjarki.

Þórsarar hafa nú 6 stig eins og Valsmenn, eru tveimur stigum á eftir liðum Njarðvíkur, Tindastóls og KR. Höttur og Haukar eru neðstir með 4 stig.

  • Ivan Aurrecoechea Alcolado 20 stig – 13 fráköst (2 í sókn/11 í vörn) – 3 stoðsendingar
  • Srdan Stojanovic 22 stig – 7 fráköst í vörn – 1 stoðsending – 1 „stolinn bolti“
  • Dedrick Deon Basile 19 stig – 4 fráköst í vörn – 10 stoðsendingar –
  • 3 „stolnir boltar“
  • Andrius Globys 8 stig – 6 fráköst (1 sókn, 5 vörn) – 2 stoðsendingar
  • Ohouo Guy Landri Edi 11 stig – 7 fráköst í vörn – 1 varið skot
  • Kolbeinn Fannar Gíslason 3 fráköst (1 í sókn, 2 í vörn) – 2 stoðsendingar – 1 „stolinn bolti“
  • Ólafur Snær Eyjólfsson 1 stig
  • Smári Jónsson 4 stig – 1 stoðsending
  • Hlynur Freyr Einarsson 3 stig – 3 fráköst í vörn – 1 stoðsending og 1 „stolinn bolti“
  • Páll Nóel Hjálmarsson 2 stig
  • Ragnar Ágústsson 2 fráköst í vörn
  • Róbert Orri Heiðmarsson 1 frákast í vörn

Allir vita að margt býr í Njarðvíkurliðinu, þrátt fyrir að það hafi ekki haft roð við Þórsurum í dag. Körfuboltavefurinn karfan.is rifjaði það upp eftir leikinn að tap Njarðvíkinga í dag væri það stærsta hjá þeim á Akureyri gegn Þór síðan 1972, þegar Þórsarar unnu með 32 stiga mun, 70:38. Þá var öldin sannarlega önnur en skemmtilegt að rifja það upp! Og sigurinn í dag hefði auðveldlega getað orðið stærri vegna þess að Bjarki þjálfari tók þá skynsamlegu ákvörðun að hvíla bestu mennina á lokamínútunum. Ungu strákarnir fengu þar með dýrmætar mínútur í sarpinn - reynslu í bankann. Næsti leikur Þórs er á fimmtudaginn þegar nafni hans frá Þorlákshöfn kemur í heimsókn í Höllina. Sá leikur hefst klukkan 18.15.

  • Neðri myndin: Srdan Stojanovic var stigahæstur Þórsara í dag, gerði 22 stig.