Fara í efni
Körfuknattleikur

Sigur á meisturunum er frábær jólagjöf

Hrefna Ottósdóttir fagnar ógurlega eftir að hún gerði þriggja stiga körfu og kom Þór í 75:68 þegar aðeins 14,1 sekúnda var eftir í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar sigruðu Íslandsmeistara Vals á Íslandsmótinu í körfubolta kvenna í kvöld í Íþróttahöllinni á Akureyri. Lokatölur urðu 77:71 og eru nýliðar Þórs í fimmta sæti Subway deildarinnar með 16 stig þegar haldið er í jólafrí og inn í nýja árið. Meistararnir eru í sjöunda sæti með 12 stig.

Það verður að segjast eins og er að í hálfleik stefndi ekkert í að Þórsarar myndu velgja gestunum undir uggum. Stelpurnar okkar náðu sér engan vegin á strik og Valur hafði 12 stig forystu, 38:26. Svipað var upp á teningnum fram í miðjan þriðja leikhluta, þá var staðan 50:32 en skyndilega skiptu Þórsstelpurnar um gír, sjálfstraustið jókst til muna og þær gerðu 16 síðustu stig leikhlutans! Ótrúlegt, en satt.

Þór jafnaði í fyrsta skipti þegar tæpar sjö mín. voru eftir, 53:53, komst í fyrsta sinn yfir, 56:55, þegar rúmar sex mín. voru eftir og létu forystuna ekki af hendi eftir það.

Nánar á morgun

Sigurgleði! Lore Devos, Maddie Sutton, Eva Wium og Heiða Hlín Björnsdóttir Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson