Fara í efni
Körfuknattleikur

Sektað fyrir ranga liti á hárbandi og sokkum

Maddie Sutton með hárbandið umtalaða í úrslitaleik VÍS-bikarsins í körfubolta í mars. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Körfuknattleiksdeild Þórs var fyrr í vor sektuð af Körfuknattleikssambandi Íslands vegna aukabúnaðar tveggja leikmanna í leikjum með liðum félagsins. Upphaflega var sektin upp á 100 þúsund krónur, en var síðan lækkuð í 50 þúsund. Málið snýst um lit á hárbandi og sokkum.

Hvaða máli skiptir litur á hárbandi og sokkum? Um það verður ekki fullyrt hér, en í reglum Alþjóða körfuknattleikssambandsins, FIBA, eru ákvæði sem eftirlitsmenn á leikjum sögðu Maddie Sutton og Michael Walcott hafa farið á svig við og var félagið sektað fyrir. Mörgum fannst þetta brot á hárbandslitnum léttvægt. Það sem vekur svo reyndar einnig undrun Þórsara er að hárbandið sem Maddie bar í úrslitaleiknum var vel dökkgrátt og ekki svo fjarri því að vera svart. Jafnvel hægt að tala um blæbrigðamun en ekki litamun.

En, það eru í gildi reglur um aukabúnað leikmanna. Reglan sem um ræðir er nefnilega sú að aukabúnaður þarf allur að vera eins á litinn. Ef einn leikmaður er til dæmis í svörtum undirbuxum eiga allir aukahlutir allra leikmanna að vera svartir, þar með talið hárband og annar búnaður. Eftirlit með þessu virðist vera meira og strangara þegar kemur í úrslitaleiki eða úrslitakeppnir. Sektin sem körfuknattleiksdeild Þórs hefur verið gert að greiða er nefnilega fyrir brot á þessum litareglum í tveimur leikjum, annars vegar bikarúrslitaleik Þórs og Keflavíkur í kvennaflokki og hins vegar í öðrum leik Þórs og Skallagríms í úrslitakeppni 1. deildar karla. 


Svart eða dökk-dökkgrátt? Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Maddie Sutton spilar ávallt með hárband af sama tagi og sést á myndunum með fréttinni. Það kostaði hana eða félagið ekki neitt fyrr en kom að úrslitaleiknum í VÍS-bikarnum. Hárbandið var þá sagt vera í öðrum lit en annar aukabúnaður, svo sem undirbuxur leikmanna. Michael Walcott, leikmaður Þórs, „var í kolsvörtum sokkum meðan aðrir liðsfélagar voru í hvítum,“ eins og það er orðað á reikningi KKÍ til Þórs. Harrison Butler var í hvítum undirbol í sama leik, sem má ekki ef aðrir leikmenn eru t.d. í svörtum undirbuxum. Akureyri.net hefur ekki upplýsingar um það af hverju notað er orðið kolsvart, en ekki bara svart.

Reglan sem vísað er til varðandi lit á aukabúnaði er úr kafla 4.4.2 í FIBA-reglunum, en Akureyri.net og aðstoðarmönnum hefur ekki tekist að finna neitt um sektarákvæði á vef Körfuknattleikssambandsins um slík mál. Ákvæðið sem um ræðir er svohljóðandi: All players on the team must have all their arm and leg compression garments, including undershirts and undershorts, headgear, wristbands, headbands and tapings of the same solid colour.