Fara í efni
Körfuknattleikur

Níunda viðureign Þórs og Stjörnunnar á árinu

Þórsstelpurnar fagna sigri á Stjörnunni í fyrsta leik Þórsliðs í efstu deild kvenna í körfubolta í lok september. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Það er skammt stórra högga á milli hjá kvennaliði Þórs í Subway-deildinni í körfubolta. Eftir glæstan sigur á toppliði Keflavíkur á sunnudag eru þær á leið í Garðabæinn og mæta Stjörnunni í Umhyggjuhöllinni í kvöld kl. 18:15.

Þessi lið ættu að þekkjast nokkuð vel því þetta er í níunda skipti sem þau mætast á árinu 2023 og í 11. skiptið á rúmu ári. Þór og Stjarnan mættust tvisvar í 1. deildinni snemma á árinu og svo fimm sinnum í úrslitarimmu 1. deildarinnar í vor. Liðin mættust í fyrstu umferð Subway-deildarinnar í haust þegar Þórsliðið spilaði fyrsta leik félagsins í efstu deild í 45 ár. Við þetta má svo bæta tveimur leikjum haustið 2022, einum í deild og svo drógust þessi lið að sjálfsögðu saman í bikarkeppninni í fyrra líka. Leikurinn í kvöld verður því 11. viðureign liðanna á rétt rúmu ári. Líkurnar eru ef til vill ekki Þórsstelpum í vil því allar þessar viðureignir liðanna sem um ræðir hafa unnist á heimavelli. 

Þór vann fyrstu viðureign liðanna í Subway-deildinni á tímabilinu með níu stiga mun í lok september.

Bæði liðin hafa hleypt skemmtilegu lífi í Subway-deildina í haust eftir að hafa fylgst að upp úr 1. deildinni. Stjarnan hefur unnið sex leiki af níu, situr í 3. sæti deildarinnar. Stjarnan lagði Grindavík í 9. umferðinni og skaust þar með upp fyrir Grindvíkinga. Þórsstelpurnar lögðu topplið Keflavíkur í frábærum leik í Íþróttahöllinni á Akureyri á sunnudag. Þór er í 6. sæti deildarinnar með fimm sigra, jafn marga og Íslandsmeistarar Vals sem eru í 5. sætinu.

Gagnrýnir þétta leikjadagskrá

Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, gagnrýndi leikjaálagið í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær. Eins og kunnugt er var leik Þórs og Keflavíkur frestað frá miðvikudegi fram á sunnudag og í dag, innan við tveimur sólarhringum frá því að leik Þórs og Keflavíkur lauk, hefja stelpurnar leik í Garðabænum. Frestun leiks Þórs og Stjörnunnar um einn dag var hafnað af Stjörnunni. Leikurinn gegn Keflavík á sunnudag var fyrsti leikur liðsins af sex leikja törn á 17 dögum.

„Þetta var fyrsti leikur í sex leikja törn á sautján dögum. Það virðist ekki vera sem Körfuknattleikssambandið trúi á endurheimt. Við erum að taka einn leik í einu og vona að hópurinn verði ekki í henglum í restina fyrir jól,“ sagði Daníel í viðtali við Bylgjuna sem einnig var birt á Vísi. 

Þess má geta að þegar þessari þéttu leikjatörn lýkur með heimaleik Þórs gegn Val þriðjudaginn 12. desember er komið jólafrí í deildinni og næsti leikur liðsins þar á eftir útileikur gegn Njarðvíkingum 2. janúar.