Fara í efni
Körfuknattleikur

Mjög sætt að skora fyrir uppeldisfélagið

Aron Einar Gunnarsson eftir að hann braut ísinn í dag; skoraði í fyrsta sinn fyrir meistaraflokk Þórs og kom liðinu í 1:0. Við hlið hans eru Alexander Már Þorláksson og Ýmir Már Geirsson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Aron Einar Gunnarsson skoraði í fyrsta sinn fyrir meistaraflokk Þórs í dag þegar liðið vann Dalvík/Reyni 2:0 í Lengjudeildinni í knattspyrnu á Þórsvellinum (VÍS-vellinum). Þórsarar losuðu sig þar með endanlega við falldrauginn en ein umferð er eftir í deildinni.

Aron var vel meðvitaður um að hann hefði aldrei skorað áður fyrir Þór þegar Akureyri.net ræddi við hann eftir leik. „Já, ég mundi það en hef ekkert verið að pæla í því,“ sagði fyrirliðinn. „Ég náði sex leikjum 2005 og sex í deildinni 2006 en skoraði ekki áður en ég fór út, en það var mjög sætt að skora fyrsta markið fyrir uppeldisfélagið í dag,“ sagði hann. „Ég er glaður að geta hjálpað liðinu á einhvern hátt og stoltur af því.“

Byggjum ofan á þetta

Þegar Aron gekk til liðs við Þór á ný í sumar vonaðist hann til þess að geta lagt sitt af mörkum til að koma liðinu í umspil um sæti í Bestu deildinni en svo fór ekki. Þórsarar hafa verið í fallbaráttu en sæti þeirra í Lengjudeildinni er nú tryggt næsta sumar eins og áður sagði.

Aron sagði að fyrst liðið var í þeirri stöðu sem raun ber vitni sé gott að það sé nú komið af hættusvæðinu. „Það var mikilvægt og nú getum við einbeitt okkur að því að byggja upp fyrir næsta tímabil. Það er mikilvægt að fara inn í það tímabil með sjálfstraust. Nú klárum við deildina og í vetur byggjum við svo ofan á það sem við höfum verið að gera og stefnum hærra á næsta tímabili.“

Sjáum til í janúar

Það var ekkert leyndarmál þegar Aron Einar kom til uppeldisfélagsins í sumar að hugurinn stefndi út á ný; að leika erlendis í vetur og með Þór aftur næsta sumar. Félagaskiptagluggum í Evrópu hefur nú verið lokað í bili en í Katar, þar sem Aron lék síðustu ár, verður glugganum skellt aftur á morgun. „Það er ekkert að gerast þannig að við sjáum bara til hvernig málin þróast að næsta glugga í janúar,“ sagði hann í dag.

Aron Einar skorar úr víti í dag. Markvörðurinn henti sér í átt að Vaðlaheiðinni en Þórsarinn þrumaði boltanum hinum megin í markið ...

Aron Einar, Alexander Már Þorláksson, Ýmir Geirsson og Ingimar Arnar Kristjánsson (23). Vítið var dæmt þegar dómarinn taldi varnarmann hafa brotið á Ingimari.