Fara í efni
Körfuknattleikur

„Langaði alltaf að vera sjálf á þessu sviði“

Eva Wium Elíasdóttir sækir að Danielle Rodriguez, sem er ein af bestu leikmönnum deildarinnar, í leik Þórs og Grindavíkur í Íþróttahöllinni á Akureyri fyrr í vetur. Mynd af heimasíðu Þórs: Helgi Heiðar Jóhannesson

Þór mætir Grindavík í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta í Laugardalshöllinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20.00 og er ástæða til þess að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að mæta í Höllina og styðja við bakið á Stelpunum okkar. Ljóst er að við ramman reip verður að draga, en gott að hafa í huga að allt er mögulegt í íþróttum. Leikurinn verður sýnt beint á RÚV 2.

Eva Wium Elíasdóttir hefur vakið verðskuldaða athygli með Þórsliðinu, bæði í Subway-deildinni í vetur sem og undanfarna vetur í 1. deild. Hún hefur átt fast sæti í yngri landsliðum Íslands og var í fyrrasumar í fyrsta skipti valin í hóp með A-landsliðinu fyrir æfingaleiki við Svía. Hún er ein af þeim sem spilar hvað mest í Þórsliðinu, er með að meðaltali um 30 mínútur í leik í vetur.

Rætt er við Evu í skemmtilegri grein á heimasíðu Þórs í tilefni leiksins í kvöld. Akureyri.net tekur sér það bessaleyfi að birta hluta greinarinnar:

Það mun því mæða mikið á Evu, bæði í sókn og vörn, eins og reyndar öllu Þórsliðinu því að sjálfsögðu vilja bæði lið vinna og fara áfram í úrslitaleikinn. Grindvíkingar eru væntanlega ekki að fara að gefa neitt eftir og það er heldur ekki í eðli Þórsarans að gefa eftir, gefast upp eða hætta þótt verkefnið sé stórt.

Líður mjög vel yfir leiknum

„Það er geggjuð tilfinning að fara í Laugardalshöllina og keppa þar. Ég man þegar ég var yngri og var að horfa á önnur lið spila þar þá langaði mig alltaf að vera sjálf á þessu sviði að spila. Þannig að í dag er ég ótrúlega þakklát fyrir hvað við erum góðar í körfubolta að geta keppt þarna!“ segir Eva þegar hún er spurð út í hvernig henni líður með að fara í Laugardalshöllina.

Áhorfendur hafa stutt vel við bakið á Þórsliðinu í heimaleikjum vetrarins í Íþróttahöllinni á Akureyri. Mynd af heimasíðu Þórs: Helgi Heiðar Jóhannesson

Nú styttist óðum í þennan sögulega leik fyrir Þórsliðið sem hefur ekki verið á þessu sviði í meistaraflokki síðan á áttunda áratug liðinnar aldar. Þór varð nefnilega Íslandsmeistari 1969, 1971 og 1976, og bikarmeistari 1975, eins og rifjað var upp með gömlu íþróttamyndinni á Akureyri.net á dögunum. Þær gerðu ekki atlögu að því að verja bikarmeistaratitilinn árið eftir því af fjárhagsástæðum hafði liðið valið að spila í bikarkeppninni 1975 og Íslandsmótinu 1976, sem þær unnu. Nú eru okkar konur komnar nær þessum stað en nokkru sinni síðan 1975 og mæta Grindvíkingum í undanúrslitaleik VÍS-bikarkeppninnar ... 

Þetta var örlítill útúrdúr, snúum okkur aftur að „svölustu sjöunni“ eins og hún var kölluð í kynningarefni í haust. Eva er klár í leikinn, Þórsstelpurnar eru klárar í baráttuna og hún hefur góða tilfinningu fyrir leiknum. „Mér persónulega líður mjög vel fyrir leiknum. Undirbúningur gengur vel og verður maður spenntari með hverjum degi. Ég veit ef við mætum tilbúnar í leikinn, sem við gerum, þá verður þetta mjög jafn og skemmtilegur körfuboltaleikur en síðan munum við taka þetta í lokin. Eitt við okkur stelpurnar er það að við gefumst aldrei upp og berjumst eins og ljón þangað til að dómarinn flautar leikslok.“

Nánar hér á heimasíðu Þórs.

Smellið hér til að fara á RÚV 2 þar sem leikurinn verður sýndur.