Fara í efni
Körfuknattleikur

Kvennalið Þórs er meistari meistaranna

Meistarar meistaranna 2024. Fyrsti bikar kvennaliðs Þórs í körfubolta í 48 ár, eða frá 1976. Aftari röð frá vinstri: Karen Lind Helgadóttir, María Sól Helgadóttir, Valborg Elva Bragadóttir, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir, Maddie Sutton, Amandine Justine Toi, Esther Marjolein Fokke og Emma Karólína Snæbjarnardóttir. Fremri röð: Katrín Eva Óladóttir, Hrefna Ottósdóttir og Eva Wium Elíasdóttir. Mynd: Karfan.is, Facebook-síða.

Kvennalið Þórs í körfubolta vann í dag þrefalda meistara síðasta tímabils, deildar-, Íslands- og bikarmeistara Keflvíkinga, í leik um titilinn meistari meistaranna. Maddie Sutton var stórkostleg í leiknum, skoraði 21 stig, tók 28 fráköst og átti 11 stoðsendingar. Þá komu nýju erlendu leikmennirnir einnig vel inn í leik liðsins, hin franska Amandine Toi var stigahæst Þórsara með 31 stig og Esther Fokke skoraði 17 stig. 

Í útsendingu frá leiknum og umfjöllun var ítrekað talað um að þetta væri fyrsti titill Þórs í körfubolta frá 1971, en það er ekki rétt því Þórsliðið vann Íslandsmeistaratitilinn 1969, 1971 og 1976 og varð bikarmeistari 1975. Bikarinn sem liðið vann í dag er því sá fyrsti frá 1976, eða í 48 ár.

Meiri sigurvilji og ákefð í jöfnum leik

Leikurinn var jafn meira og minna frá byrjun. Keflvíkingar höfðu yfirhöndina í fyrsta leikhluta, en Þórsliðið náði að snúa leiknum sér í hag og var þremur stigum yfir eftir fyrri hálfleikinn. Leikmönnum beggja liða voru reyndar mjög mislagðar hendur á löngum kafla í 2. leikhlutanum, eins og sést á skorinu. 

Keflvíkingar komu svo af krafti inn í seinni hálfleikinn og höfðu yfirhöndina fram eftir þriðja leikhlutanum, en Þórsliðið hleypti þeim ekkert of langt frá sér og stelpurnar sýndu áfram þá ákveðni og þann sigurvilja sem þarf til að klára svona leiki. Þær náðu forystunni, héldu frumkvæðinu í lokafjórðungnum og reyndust einfaldlega sterkari á lokakaflanum, sýndu yfirvegun í sókn og vörn og hittu úr mikilvægum skotum á lokamínútunum. 



Amandine Justine Toi var stigahæst í Þórsliðinu með 31 stig. Mynd: Karfan.is.

Maddie Sutton átti stórkostlegan leik, eins og áður sagði. Tölfræðin lýgur ekki, 28 fráköst á 40 mínútum, þar af 11 sóknarfráköst. Þá virðist Daníel Andra aftur hafa tekist að finna sterka erlenda leikmenn eftir að ein af þeim bestu í deildinni í fyrravetur, Lore Devos, gekk í raðir Hauka. Það verður því forvitnilegt að sjá hvernig liðið þróast með þessa nýju leikmenn og hinar efnilegu Þórsstelpur eins og Evu Wium Elíasdóttur, Hrefnu Ottósdóttur og Emmu Karólínu Snæbjarnardóttur. 


Maddie Sutton var að öðrum ólöstuðum klárlega kona leiksins. Mynd: Karfan.is.

Gangur leiksins eftir leikhlutum: Keflavík - Þór (24-19) (10-18) 34-37 (24-25) (24-24) 82-86

Helstu tölur Þórsliðsins, stig, fráköst og stöðsendingar:

  • Amandine Justine Toi 31 - 6 - 2
  • Maddie Sutton 21 - 28 - 11
  • Esther Marjolein Fokke 17 - 5 - 3
  • Eva Wium Elíasdóttir 8 - 6 - 2
  • Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 6 - 0 - 0
  • Hrefna Ottósdóttir 3 - 1 - 1
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 0 - 1 - 0

Myndirnar með fréttinni eru fengnar af Facebook-síðu Körfunnar - karfan.is - með góðfúslegu leyfi. Myndasmiður er Gunnar Jónatansson.

Myndin hér að neðan gefur innsýn í helstu tölfræðiþætti úr leiknum. Þar má til dæmis sjá að Þórsliðið tók 20 fleiri fráköst en Keflvíkingar, 56 á móti 36. Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.