Fara í efni
Körfuknattleikur

Körfubolti, íshokkí, handbolti og fótbolti

Shawlee Gaudreault markvörður íshokkíliðs SA - Dagur Árni Heimisson handboltamaður í KA - Maddie Sutton körfuboltakona í Þór. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Mikið er um að vera hjá akureyrsku íþróttafólki í dag. Innan bæjarmarkanna verður keppt í íshokkí, körfubolta, handbolta og fótbolta auk þess sem karlalið KA í blaki keppir við Vestra á Ísafirði.

Kvennalið Skautafélags Akureyrar leikur næst síðasta leik sinn fyrir jólafrí, síðasta heimaleikinn, í Skautahöllinni á Akureyri í dag þegar SA tekur á móti liði SR. Leikurinn hefst kl. 16:45.

  • SA er í mjög góðri stöðu í Hertz-deild kvenna, er með 24 stig eftir níu leiki. Liðið hefur aðeins tapað einum leik. Lið Skautafélags Reykjavíkur er án stiga eftir sex leiki. Þó SA hafi yfirburðastöðu í deildinni hafa tveir af fjórum sigrum liðsins gegn SR á tímabilinu endað með eins marks sigri, einn með tveggja marka og einn með þriggja marka sigri. 
Karlalið KA í handbolta tekur á móti Selfyssingum í dag í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn hefst klukkan 15.00.
 
  • Þetta er síðasti heimaleikur KA á árinu og mikið húllumhæ verður í KA-heimilinu í samstarfi við Krónuna. Einn heppinn stuðningsmaður fær 30.000 kr. inneign hjá Krónunni og boðið verður upp á ýmsa skemmtilega leiki. Fyrir leiki verður glæsileg vöfflusala, að því er segir í tilkynningu. 
  • KA-menn eru í sjöunda sæti deildarinnar með 10 stig að loknum 11 leikjum en Selfyssingar verma botnsætið sem fyrr, eru með fjögur stig að loknum jafn mörgum leikjum. Með sigri í dag kemst KA upp að hlið Hauka í sjötta sætinu.
  • Að Olís-deildarleiknum loknum mætast ungmennalið KA og ungmennalið Fram í næstu efstu deild, Grill 66 deildinni. Sú viðureign hefst klukkan 17.30.
  • Allir handboltaleikir eru í beinni útsendingu á Handboltapassa Símans.
Þór tekur á móti 1. deildar liði Aþenu í 16 liða úrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta, VÍS-bikarkeppninni, í Íþróttahöllinni. Leikurinn hefst klukkan 18.00.
 
  • Aþena er í 4. sæti 1. deildar þar sem liðið hefur unnið fimm leiki af átta. Liðið vann unglingaflokkslið Stjörnunnar í síðasta leik í deildinni með 29 stiga mun. Þórsliðið, sem leikur í efstu deild Íslandsmótsins, Subway deildinni, vann Snæfell í síðustu umferð með 33 stiga mun.
  • Leiknum verður streymt á Þór TV - livey.events/thortv.

Einn leikur er á dagskrá Kjarnafæðismótsins í knattspyrnu í kvöld, A-lið Þórs og B-lið KA mætast kl. 19.00 í Boganum.

  • Þetta árlega æfingamót Knattspyrnudómarafélags Norðurlands (KDN), hófst í gærkvöldi þegar A-lið KA mætti B-liði Þórs í Boganum. KA-menn sigruðu 5:1,

Um leik gærkvöldsins segir á Facebook síðu KDN:

  • Leikurinn var jafn fram á 24. mínútu þegar Daníel Hafsteinsson braut ísinn og í kjölfarið komu 3 KA mörk á næstu 9 mínútum. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði á 26. mínútu og aftur á þeirri 30. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði svo fjórða mark KA á 33. mínútu. KA menn skiptu svo flestum sínum mönnum útaf og leikurinn jafnaðist mikið við það. Þórsarar skoruðu sjálfsmark á 82. mínútu eftir að Jakob Gunnar Sigurðsson skaut í varnarmann Þórs og þaðan fór boltinn í eigið net. Kristinn Bjarni Andrason minnkaði muninn fyrir Þórsara með fallegu skoti á 89. mínútu.