Fara í efni
Körfuknattleikur

Körfuboltavöllur til minningar um Ágúst?

Á æfingu í íþróttahúsi Glerárskóla. Feðgarnir Ágúst H. Guðmundsson og Júlíus Orri, einn efnilegasti körfuboltamaður landsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Vinir Ágústs Herberts Guðmundssonar, sem féll frá í upphafi árs, stefna að því að reisa veglegan körfuboltavöll utandyra, á lóð Glerárskóla, með snjóbræðslu, girðingu og lýsingu, til minningar um Ágúst.

„Við veltum fyrir okkur hvað við gætum gert til að heiðra minningu hans. Við viljum hafa völlinn við Glerárskóla því Gústi þjálfaði lang mest í íþróttahúsi skólans, þar ólumst við upp í körfuboltanum og skólinn er nálægt Hamri, félagsheimili Þórs. Þetta er því táknrænn staður fyrir okkur,“ sagði Óðinn Ásgeirsson við Akureyri.net, og bætti við að þeir hefðu einmitt fengið mjög góð viðbrögð við hugmyndinni um staðsetningu. Óðinn er einn fjögurra gamalla körfuboltamanna sem hyggjast standa að að verkefninu, og fyrrverandi lærisveinn Ágústs heitins. Hinir þrír eru Hrafn Jóhannesson, Einar Örn Aðalsteinsson og Böðvar Kristjánsson.

Þeir Óðinn hafa leitað eftir samstarfi við Akureyrarbæ og var hugmyndinni vel tekið. „Það er ekkert fast í hendi; við erum að taka fyrstu skrefin en erum bjartsýnir á að þetta takist. Stefnan er að hefja vinnu í sumar og standa Gústalega að verkinu; ekki hangsa, heldur drífa í hlutunum. En það veltur á endanum á því hvernig bærinn tekur þessu og að það fari hratt og örugglega í gegnum bæjarkerfið.“

Óðinn segir fjórmenninganna stefna að því að hefja fjáröflun þegar og ef bærinnn samþykkir að völlurinn verði að veruleika, og vonast til að bæjaryfirvöld leggi fram fjármagn á móti. „Fyrirhugað er að fara í framkvæmdir á lóð Glerárskóla samkvæmt fjárhagsætlun og ég held að völlurinn hljóti að falla vel að því sem fyrirhugað er að gera,“ segir Óðinn.