Fara í efni
Körfuknattleikur

Hollensk landsliðskona í körfuboltalið Þórs

Hollenska landsliðskonan Esther Fokke hefur gengið til liðs við körfuknattleikslið Þórs.

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur samið við hollensku landsliðskonuna Esther Fokke um að leika með liðinu í úrvalsdeild kvenna, Subway-deildinni, á komandi tímabili. Hún er 186 sm að hæð og spilar sem framherji. Hún var á mála hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Marburg á síðastliðnu tímabili. 

Á vef Þórs er haft eftir Daníel Andra Halldórssyni, þjálfara kvennaliðs Þórs, að hann sé afar spenntur fyrir leikmanninum. „Nú fer allt að smella í tæka tíð fyrir tímabil og það er frábært að Esther bætist í hópinn. Hún kemur til með að hjálpa okkur mikið á báðum endum vallarins ásamt því að hækka meðalhæðina umtalsvert,“ segir Daníel Andri á vef félagsins.

Þess má geta að kvennalið Þórs fer beint í að berjast um titil í upphafi tímabilsins því sá árangur að komast í bikarúrslitaleikinn síðastliðinn vetur tryggir þeim sæti í meistarakeppni KKÍ þar sem Keflvíkingar unnu bæði Íslandsmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn. Leikurinn fer fram í Keflavík í lok september.