Fara í efni
Körfuknattleikur

Glæsileg frammistaða og yfirburðasigur

Dedrick Deon Basile var frábær í Þórsliðinu eins og svo oft áður. Hér brunar hann framhjá Everage Lee Richardson í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar unnu ÍR-inga mjög örugglega í Domino's deild Íslandsmótsins í körfubolta í Höllinni í kvöld, 107:84. Þórsliðið hefur þar með unnið fjóra leiki í röð og er komið með 14 stig, eins og Valur og ÍR. Liðin eru í 6. til 8. sæti deildarinnar.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 24:21 – 34:21 (58:42) – 30:22 – 19:20 (107:84)

Satt að segja var reiknað með miklu meiri mótspyrnu frá ÍR-ingum. Upphafsmínúturnar eru sér kapítuli; Þórsarar gerðu fyrstu 15 stigin og ÍR skoraði ekki fyrr en fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Þeir spýttu svo í lófana og staðan eftir fyrsta fjórðung var 24:21! Þór vann næsta leikhluta mjög örugglega, 34:21, þann þriðja 30:22 og þá voru úrslitin löngu ráðin.

Leikstjórnandinn Dedrick Deon Basile var frábær í Þórsliðinu sem fyrr, og raunar léku allir mjög vel. Dedrick og Srdjan Stojanovic gerðu báðir 34 stig, Ohouo Guy Landry Edi gerði 18 stig, Andrius Globys 15, Hlynur Freyr Einarsson 4 og Ragnar Ágústsson 2.

Tröllið Ivan Alcolado, miðherjinn sem hefur farið hamförum með Þór undanfarið, lék aðeins fyrstu sex mínúturnar. Hann var veikur, ætlaði að láta sig hafa það en varð að játa sig sigraðan. Félagar hans tóku hins vegar við keflinu; aðrir sáu um baráttunni undir körfunni – ekki síst Andrius Globys, sá hljóðláti en eitilharði Lithái, sem virkar oft ekki áberandi á vellinum, en þegar rýnt er í tölfræðina átta sig menn vel á því gríðarlega mikilvægur hann er – og Þórsarar lögðu meira upp úr langskotum en oft áður, sem gafst vel. 

Afar gaman er að fylgjast með Þórsliðinu þessa dagana, ekki síst vegna þess hve liðsheildin er góð. Það er gömul saga og ný að hópur framúrskarandi einstaklinga myndar ekki endilega gott lið; það er ekki sjálfgefið ef einhverjir hugsa fyrst og fremst um eigin frammistöðu, en því er aldeilis ekki að heilsa hjá Þórsurum nú. Allir eru reiðubúnir að berjast fyrir félagana og leggja ýmsa þætti af mörkum sem liðið þarf á að halda. Hugarfarið er til mikillar fyrirmyndar og vonandi á þessi flotti hópur eftir að gleðja körfuboltaáhugamenn í bænum lengi enn.

Vert er að benda á að Basile lék hverja einustu sekúndu leiksins, og Globys lék í 39 mínútur og 2 sekúndur, af mínútunum 40 sem leikurinn stendur.

Ingvi Guðmundsson, sem fékk höfuðhögg í sigurleiknum gegn Stjörnunni fyrir viku, er enn ekki leikfær en sat á meðal varamenna með sólgleraugu og eyrnatappa. Gengur greinilega ekki heill til skógar.

  • Dedrick Deon Basile 34 stig – 6 fráköst – 8 stoðsendingar (40:00 mín.)
  • Srdan Stojanovic 34 stig – 6 fráköst – 1 stoðsending (36:15)
  • Andrius Globys 15 stig – 13 fráköst – 2 stoðsendingar (39:02)
  • Ohouo Guy Landry Edi 18 stig – 7 fráköst – 3 stoðsendingar (33:02)
  • Hlynur Freyr Einarsson 4 stig – 2 fráköst – 1 stoðsending (17:26)
  • Ivan Aurrecoechea Alcolado 3 fráköst – 2 stoðsendingar (5:55)
  • Smári Jónsson 1 stoðsending – (2:17)
  • Ragnar Ágústsson 2 stig – 2 fráköst – 1 stoðsending (25:05)
  • Róbert Orri Heiðmarsson (0:58)
  • Ólafur Snær Eyjólfsson (0:00)
  • Páll Nóel Hjálmarsson (0:00)
  • Kolbeinn Fannar Gíslason (0:00)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Næsti leikur Þórs í Domino's deildinni er strax á sunnudaginn, gegn KR í Reykjavík. Sá leikur hefst klukkan 19.15.

Andrius Globys, til vinstri, var sannkallaður klettur í Þórsliðinu í kvöld. Til hægri er Collin Anthony Pryor. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson. 

Illa fjarri góðu gamni! Frá vinstri: Ivan Alcolado, sestur á bekkinn vegna veikinda, Ingvi Guðmundsson, sem var ekki í hópnum í kvöld vegna höfuðhöggs sem hann fékk á dögunum, og Júlíus Orri Ágústsson, sem er meiddur og hefur lítið leikið í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson