Fara í efni
Körfuknattleikur

Fyrsti fótboltaleikur og fyrsta íþróttamótið

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 56

Fyrsta íþróttamót sem haldið var á Íslandi fór fram á Akureyri 17. júní árið 1909. Það telst fyrsta landsmót Ungmennafélags Íslands, sem stofnað var 1907. Mótið er að sjálfsögðu á allra vitorði en færri virðast meðvitaðir um að fyrsti opinberi knattspyrnuleikur á Íslandi var hluti  þessa íþróttamóts.

Tilvalið er að rifja þetta upp nú í tilefni þess að 80 ára afmæli Íþróttabandalags Akureyrar er fagnað í dag með hátíð í Boganum. Afmælisdagurinn er 20. desember, ÍBA var stofnað þann dag þjóðhátíðarárið 1944. 

Gamla íþróttamyndin þessa vikuna er óhefðbundin; ekki ljósmynd, heldur birtist hér leikskrá íþróttamótsins 17. júní 1909 sem ofanritaður á í fórum sínum. Ekki hafa fundist ljósmyndir frá mótinu, sem fór fram á Oddeyrartúni. Í fjögurra síðna bæklingi sem gefinn var út eru meðal annar birt nöfn keppenda í öllum greinum.

Eins og sjá má var keppt í glímu, síðan í stökkum, þá kapphlaupi, kappgöngu og kappsundi. Að lokum fór fram hinn sögulegi knattspyrnuleikur þar sem áttust við lið Akureyrar og Húsavíkur.

 
 
 
Lið Akureyrar sigraði 1:0 í leiknum en hvergi er skráð hver skoraði fyrsta markið í opinberun knattspyrnuleik hér á landi. En Akureyringar fögnuðu altjent fyrstir sigri.
 
Um leikinn segir í Akureyrarblaðinu Norðra 24. júní: Áttust þar við tveir flokkar, annar af Húsavík en hinn af Akureyri. Voru 11 menn í hvorum flokki. Akureyringar unnu einn leik og hlutu fánastöng að verðlaunum.
 
  • Lið Akureyrar skipuðu: Halldór Arnórsson, Jóhann Havsteen, Ólafur Sigurgeirsson, Björn Arnórsson, Árni Sigurðsson, Arngrímur Ólafsson, Karl Guðnason, Þórhallur Gunnlaugsson, Jakob Kristjánsson, Gísli Ólafsson og Magnús Matthíasson.
  • Húsvíkingarnir sem léku voru: Albert Sigtryggsson, Eiríkur Þorbergsson, Páll Sigurjónsson, Jón Guðmundsson, Þorsteinn Gunnarsson, Árni Stefánsson, Guðmundur Vilhjálmsson, Rútur Jónsson, Sigurður Sigfússon, Pétur Sigfússon og Óli Vilhjálmsson.
Í Norðra segir: Veður var hið fegursta allan daginn, logn og sólskin, en þó í heitara lagi. Mikill mannfjöldi sótti íþróttamótið, líkl. 12-1500 manna.

Þegar þess er gætt, að þetta er fyrsta íþróttamót, sem haldið hefir verið hér, verður eigi annað sagt en það hafi tekist vonum fremur. Forgöngumönnunum þótti það helst ábótavant, hve lítil þátttakan í íþróttunum var utan Akureyrar, en við öðru var eigi að búast í fyrsta
sinn.

Íþróttamótin ættu með tímanum að verða bezta ráð til að efla og glæða íþróttalíf hjá oss og þyrfti sú regla að komist sem fyrst á, að þau verði haldin árlega, helzt í hverri sýslu.