Fara í efni
Körfuknattleikur

Fyrsta tap SA kvenna kom gegn Fjölni í gær

Mynd: SA hokkí.

Kvennalið SA tapaði sínum fyrsta leik í Íslandsmótinu í íshokkí, Toppdeildinni, þegar liðið fékk Íslandsmeistara Fjölnis í heimsókn í Skautahöllina á Akureyri í gær. Lokatölur urðu 1-2.

Markalaust var í fyrsta leikhlutanum, en vegna refsinga undir lok fyrsta leikhluta þurfti SA að hefja leik í öðrum leikhluta tveimur leikmönnum færri og voru þrjár á móti fimm fyrstu 19 sekúndurnar og síðan fjórar á móti fimm. Sú fjórða rétt komin inn á ísinn og ekki inn í vörnina þegar gestirnir nýttu sér liðsmuninn. Hilma Bóel Bergsdóttir skoraði þá fyrsta mark leiksins eftir 23ja sekúndna leik eftir stoðsendingar frá Kolbrúnu Maríu Garðarsdóttur og Berglindi Leifsdóttur.  Berglind bætti svo við öðru markinu um miðjan þriðja leikhlutann með stoðsendingu frá Sigrún Árnadóttur.

SA tókst að minnka muninn þegar innan við fimm mínútur voru eftir af leiknum og voru þá einum leikmanni fleiri. Magdalena Sulova átti þá langskot sem var varið og eftir baráttu upp við markið sótti Silvía Rán Björgvinsdóttir að markinu og Amanda Ýr Bjarnadóttir kom pökknum í markið. Þetta varð eina mark SA í leiknum og 1-2 tap því niðurstaðan.

Eins og sjá má á fjölda skota sem liðin áttu á markið voru það gestirnir sem áttu mun fleiri marktilraunir, meira en tvöfalt fleiri skot en lið SA. Eftir sigurinn í gær er Fjölnir á toppi deildarinnar með níu stig úr fjórum leikjum, en SA hefur sex stig úr þremur leikjum.

Helstu tölur

SA
Mörk/stoðsendingar: Amanda Ýr Bjarnadóttir 1/0, Silvía Rán Björgvinsdóttir 0/1, Magdalena Sulova 0/1. 
Varin skot: Shawlee Gaudreault - 36 (94,7%).
Refsimínútur: 16.

Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Berglind Leifsdóttir 1/1, Hilma Bóel Bergsdóttir 1/0, Kolbrún María Garðarsdóttir 0/1, Sigrún Árnadóttir 0/1.
Varin skot: Karitas Halldórsdóttir - 15 (93,75%).
Refsimínútur: 8.

Allir leikir í Toppdeildunum eru sýndir beint á YouTube-rás SA og/eða Íshokkísambandsins. Í spilurunum hér að neðan má sjá mörkin úr leiknum.

  • 0-1 - Hilma Bóel Bergsdóttir skorar eftir 23 sekúndur í öðrum leikhluta. Stoðsending: Kolbrún María Garðarsdóttir og Berglind Leifsdóttir.

  • 0-2 - Berglind Leifsdóttir (48:22). Stoðsending: Sigrún Árnadóttir

  • 1-2 - Amanda Ýr Bjarnadóttir (55:32). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir, Magdalena Sulova