Dilyan Kolev úr leik eftir 1-6 tap
Dilyan Kolev, sem gekk til liðs við píludeild Þórs í haust, tapaði viðureign sinni í undanúrslitum Úrvalsdeildarinnar í pílukasti í kvöld.
Kolev varð efstur í úrvalsdeildinni með 75% sigurhlutfall og var með 67,95 í meðaltal (meðalskor með þremur pílum). Í undanúrslitunum mætti hann einum sterkasta pílukastara landsins, Alexander Veigari Þorvaldssyni úr Pílufélagi Grindavíkur, sem hafði endað í 4. sæti í deildinni.
Kolev náði sér hins vegar engan veginn á strik í kvöld, á úrslitakvöldi úrvalsdeildarinnar, og lenti 0-5 undir, en vinna þarf sex leggi til að vinna leikinn. Það var svo loksins í sjötta legg sem hann komst á blað, vann sinn fyrsta og eina legg eftir að Alexander Veigar hafði misnotað tvö góð tækifæri til útskots. Kolev komst svo í gott færi til að vinna annan legg strax á eftir, en náði ekki að nýta sér góð tækifæri til útskots. Alexander Veigar nýtti sér það og vann legginn og leikinn þar með 6-1.