Fara í efni
Körfuknattleikur

Borgnesingar tóku frumkvæði í einvíginu

Reynir Róbertsson var frábær gegn Skallagrími í gærkvöldi. Hann gerði 36 stig en það dugði ekki til. Borgnesingurinn er Marinó Þór Pálmason. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði naumlega fyrir Skallagrími í Höllinni á Akureyri í gærkvöldi í fyrsta leik liðanna í 1. umferð úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta. Gestirnir höfðu 11 stiga forystu í hálfleik en Þórsarar sneru dæminu í seinni hálfleik og voru í kjörstöðu þegar skammt var til leiksloka. Það dugði ekki til.

  • Skorið eftir leikhlutum: 22:25 – 19:27 – 41:52 – 29:16 – 25:29 – 95:97

Gestirnir voru betri í fyrri hálfleik. Þórsarar náðu ekki að sýna sitt rétta andlit en komu vel stemmdir út á gólfið eftir hálfleiksstund í búningsklefanum, unnu þriðja leikhluta með 13 stiga mun og staðan var 70:68 þeim í vil fyrir síðasta fjórðung.

Þórsarar létu kné fylgja kviði í fjórða leikhluta, gerðu fimm fyrstu stigin og breyttu stöðunni í 75:68. Þegar 3 mín. og 12 sek. voru eftir var staðan 87:81 fyrir Þór en þá var 5. villan dæmd á Þórsarann Jason Gigliotti og honum gert að fara af velli. Allt small í baklás í kjölfarið og Borgnesingar gerðu 11 stig í röð. Staðan var þá orðin 92:87 fyrir gestina. Á þeim kafla fór hvert dauðafærið af öðru forgörðum hjá Þórsurum og ekki bætti úr skák að þegar þegar tæp mínúta var eftir og Skallagrímur einu stigi yfir fór Þórsarinn Harrison Butler af velli eftir að dómari taldi hann brotlegan – sem var reyndar óskiljanleg ákvörðun; það var fimmta villan sem dæmd var á Butler og hann lauk þar með leik.

Reynir Róbertsson var frábær í Þórsliðinu í kvöld, Baldur og Smári áttu fína spretti, Gigliotti var drjúgur að vanda en Butler náði ekki að sýna sparihliðarnar sem var óheppilegt. Hann verður einfaldlega að gera betur þegar jafn mikið er í húfi og raun ber vitni.

Helsta tölfræði Þórsara, stig, fráköst, stoðsendingar:

Reynir Róbertsson 36/5/5, Jason Gigliotti 15/11/4, Baldur Örn Jóhannesson 14/6/3, Smári Jónsson 14/1/6, Harrison Butler 8/4/4, Páll Nóel Hjálmarsson 6/1/0, Andri Már Jóhannesson 2/0/0, Hákon Hilmir Arnarsson 0/0/1.

Skallagrímur er þar með 1:0 yfir í einvíginu. Sigra þarf í þremur leikjum til að komast í næstu umferð, liðin mætast næst í Borgarnesi  á þriðjudaginn og þriðji leikurinn verður í Höllinni á Akureyri laugardaginn 13. apríl.