Fara í efni
Knattspyrna

Völsungsstúlku skipt inn á fyrir móður hennar

Ísabella Anna Kjartansdóttir (2011) kemur inn á fyrir móður sína, Hörpu Ásgeirsdóttur (1986). Mynd: Græni herinn.

Sá skemmtilegi atburður átti sér stað í leik Völsungs og Vestra í 2. deild kvenna í knattspyrnu í dag að á 82. mínútu var dóttur skipt inn á fyrir móður. Harpa Ásgeirsdóttir, sem fædd er 1986, kom þá út af og inn í hennar stað kom dóttir hennar, Ísabella Anna Kjartansdóttir, fædd 2011. Harpa skoraði eitt af fimm mörkum Völsungs í leiknum og er það hennar 80. mark í meistaraflokki. 

Harpa á að baki 253 leiki í meistaraflokki í mótum á vegum KSÍ, langflesta þeirra fyrir Völsung. Hún á leiki með Aftureldingu og KR 2010 og svo kemur tengingin við Akureyri því árið 2003 spilaði hún tvo leiki í Landsbankadeildinni, efstu deild, með Þór/KA/KS og þrjá leiki með 2. flokki félagsins. Dóttir hennar, Ísabella Anna, spilaði í dag sínar fyrstu mínútur í deildarleik, en á einnig að baki einn leik í Lengjubikarnum. Þær náðu semsagt ekki að spila samtímis inni á vellinum, en væntanlega kemur að því áður en varir. 

Þess má svo einnig geta til fróðleiks að með Völsungi spila nokkrar knattspyrnuknour frá Akureyri, en félögin eiga samstarf sín á milli ásamt fleirum um lið í 2. flokki. Í leiknum í dag voru þær Ísabella Júlía Óskarsdóttir, Ólína Helga Sigþórsdóttir og Júlía Margrét Sveinsdóttir allar í byrjunarliði Völsungs. Ólína Helga skoraði eitt af fimm mörkum Völsungs.

Frá þessu er sagt á Facebook-síðunni Græni herinn þar sem einnig er farið yfir leikinn og gengi liðsins það sem af er, sem hefur verið afar gott.

ENN EINN SIGURINN!!!!!!!!!!!!!!!!!

Það var ooooog! Frábærlega leikinn leikur hjá okkar konum í dag og magnaður 5-0 sigur að baki! Ísinn brast á 39.mínútu og þar var Krista Eik að verki með sitt áttunda deildarmark í sumar, 1-0 í hálfleik!

Halla Bríet hóf seinni hálfleikinn með marki og bætti sjálf við öðru stuttu síðar - 3-0!!

Harpa Ásgeirsdóttir merkti við sig á markaskorarablaðinu enn eitt tímabilið, 4-0! Ólína Helga rak svo síðasta naglann í kistu Vestfirðinga og 5-0 sigur staðreyndin.

Þau undur og stórmerki áttu sér stað á vellinum að Ísabella Anna Kjartansdóttir kom inn fyrir Hörpu móður sína þegar 10 mínútur voru eftir. Ísabella fædd árið 2011 og efnilegur leikmaður þar á ferð. Þær mæðgur munu vonandi spila saman síðar!

Toppsætið, 15 stig eftir 5 leiki og blússandi sigling á okkar konum. Áfram veginn við höldum og mætum Smára i Kópavogi næsta sunnudag!

ÁFRAM VÖLSUNGUR!!!💚💚💚