Fara í efni
Knattspyrna

Viðar Örn leikur með KA-mönnum í sumar!

Framherjinn Viðar Örn Kjartansson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur samið við KA um að leika með liðinu í sumar! Félagið greindi frá þessu á samfélagsmiðlum í morgun.

Viðar, sem er 34 ára Selfyssingur, hefur leikið víða um lönd á ferlinum og alltaf verið iðinn við markaskorun. Ekki er að efa að hann verður hvalreki fyrir KA-menn. Aðeins er rúm vika þar til flautað verður til leiks í efstu deild Íslandsmótsins, Bestu deildinni.

Viðar lék síðast á Íslandi sumarið 2013 með Fylki. Hann á að baki 32 leiki með A-landsliði Íslands og hefur gert 4 mörk.

Framherjinn lék fyrst í meistaraflokki með uppeldisfélaginu, Selfossi, 16 ára gamall sumarið 2006. Hann hefur einnig leikið með ÍBV og Fylki hérlendis og síðan með Vålerenga í Noregi, Jiangsu í Kína, Malmö og Hammarby í Svíþjóð, Maccabi Tel Aviv í Ísrael, Rostov og Rubin Kazan í Rússlandi, Yeni Malat í Tyrklandi, Atromitos í Grikkklandi og síðast með liði CSKA 1948 í Búlgaríu.

VIÐBÓT – Í frétt sem birtist  á heimasíðu KA var farið ítarlegar yfir feril Viðars Arnar. Þar segir:

Knattspyrnudeild KA barst í dag heldur betur stórkostlegur liðsstyrkur þegar Viðar Örn Kjartansson skrifaði undir samning við félagið. Viðar Örn er einhver allra mesti markaskorari í sögu Íslands og segir það ansi mikið um það umhverfi sem við höfum skapað hér fyrir norðan að Viðar Örn gangi í raðir KA.

Viðar Örn er 34 ára gamall og gengur í raðir KA frá Búlgarska liðinu CSKA 1948. Viðar hefur leikið með stórum liðum á sínum ferli en 2014 hélt hann út til Vålerenga í Noregi þar sem hann varð markakóngur efstu deildar með 25 mörk í 29 leikjum.

Í kjölfar þessa stórkostlega tímabils í Noregi var hann keyptur til Jiangsu Sainty í Kína. Þaðan lá leiðin til Malmö FF í Svíþjóð þar sem hann gerði 14 mörk í 20 leikjum uns hann gekk í raðir Ísraelska stórliðsins Maccabi Tel Aviv. Með Maccabi gerði hann 32 mörk í 63 leikjum og var markakóngur deildarinnar tímabilið 2016-2017 með 19 mörk.

Árið 2018 gekk hann í raðir Rostov í Rússlandi en hann lék einnig með Rubin Kazan þar í landi. Hann sneri svo aftur í Vålerenga þar sem hann gerði 18 mörk í 42 leikjum. Eftir góða frammistöðu með Vålerenga lá leiðin til Grikklands þar sem hann lék með Atromitos áður en hann hélt til Búlgaríu.

Þá hefur Viðar Örn leikið 32 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og gert í þeim fjögur mörk, þar á meðal glæsilegt mark gegn Danmörku í þjóðadeildinni. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn norður og hlökkum til að sjá til hans í gula og bláa búningnum.