Fara í efni
Knattspyrna

Viðar Örn í 6 mánaða bann vegna skuldar

Viðar Örn Kjartansson fagnar marki í sumar. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason

Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson, sem gekk til liðs við KA fyrir yfirstandandi leiktíð, hefur verið úrskurðaður í tímabundið keppnisbann – að hámarki í sex mánuði – af alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA. Ástæða bannsins er sú að Viðar Örn hefur ekki efnt sinn hluta starfslokasamnings við búlgarska félagið CSKA 1948 Sofia.

Knattspyrnuvefurinn 433 á vef DV greindi fyrst frá þessu í dag. Haukur Hinriksson, lögfræðingur Knattspyrnusambands Íslands, staðfestir fréttina við fjölmiðilinn.

Haukur segir við 433 að við starfslok Viðars hjá CSKA 1948 Sofia snemma á þessu ári hafi hann og félagið samið um ákveðnar skyldur Viðars gagnvart félaginu. Eftir að hann stóð ekki við samkomulagið hafi félagið farið með málið til FIFA. Í fréttinni kemur fram að greiði Viðar Örn félaginu fjárupphæð sem FIFA hefur úrskurðað að það eigi rétt á, verði banninu aflétt.

Viðar Örn er 34 ára. Samningur hans við KA rennur út eftir keppnistímabilið.

Smellið hér til að sjá frétt 433 á DV