Fara í efni
Knattspyrna

Toppslagur: Þór/KA - Valur í Bestu deildinni

Sandra María Jessen gerði 100. markið fyrir Þór/KA í efstu deild í öruggum sigri á Stjörnunni í Garðabæ á dögunum - og bætti reyndar 101. markinu við. Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður Þórs/KA, afhenti Söndru Maríu í tilefni afreksins fyrir leikinn gegn Fylki á föstudaginn. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason

Sannkallaður stórleikur er á dagskrá í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í dag þegar Þór/KA tekur á móti Íslandsmeisturum Vals. Flautað verður til leiks á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) kl. 18.15.

Valur er í  2. sæti deildarinnar með 24 stig en Þór í 3. sæti með 21. Lið Breiðabliks er efst, jafnt Val að stigum. Viðureignin í kvöld verður því alvöru toppslagur.

Valur og Þór/KA mættust í 1. umferð Bestu deildarinnar í vor og þá höfðu Valsstelpurnar betur á heimavelli sínum að Hlíðarenda, 3:1. Sandra María Jessen gerði þá mark Stelpnanna okkar.

Hinn hefðbundni hluti deildarinnar er sem sagt hálfnaður, síðari umferð að hefjast og að henni lokinni verður deildinni skipt í tvennt; sex efstu halda áfram baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en fjögur neðstu leika innbyrðis þar sem kemur í ljós hvaða tvö halda sæti í deildinni og hvaða tvö lið falla.

Þór/KA vann Val síðast á Íslandsmótinu í maí árið 2022. Leikið var í Boganum, Stelpurnar okkur unnu 2:1 með mörkum Söndru Maríu Jessen og Margrétar Árnadóttur. Margrét gerir hér sigurmarkið og fagnar að hætti hússins! Myndir: Skapti Hallgrímsson

Á frábærum vef Þórs/KA, sem vert er að benda á, er m.a. rifjað upp í tilefni leiksins að nokkuð margar hafa leikið með báðum liðum, Þór/KA og Val. Nú eru til dæmis þrjár frá Akureyri í herbúðum Hlíðarendaliðsins, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Lillý Rut Hlynsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir, en Arna Sif er reyndar frá keppni vegna meiðsla og verður ekkert með í sumar.

Valur hafði betur í öllum þremur leikjum liðanna í Bestu deildinni í fyrrasumar. „Það er því sannarlega kominn tími til að ná sigri gegn Val og þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að fá fólk á völlinn og fá öflugan stuðning úr stúkunni. Mikilvægi stuðningsins hefur margsýnt sig,“ segir á vef Þórs/KA.

Þar segir einnig: „Upphitun fyrir leikinn verður hefðbundinn, grillið funheitt og borgararnir ljúffengir beint af grillinu, Jói í sófanum eða Peddi á pallinum kl. 17:30, fótboltaspilin til sölu í sjoppunni og bara eitt að gera, fylla stúkuna og styðja stelpurnar til sigurs!

Akureyri.net leyfir sér að taka undir þessa hvatningu; Stelpurnar okkar hafa staðið sig afar vel í sumar og eiga skilið að sem flestir mæti og styðji þær til dáða!

Smellið hér til að fara á vef Þórs/KA