Knattspyrna
Þrjár erlendar gengnar til liðs við Þór/KA
18.03.2021 kl. 11:12
Þrír leikmenn frá þremur löndum eru á leið til Akureyrar á næstu dögum og vikum og munu spila með Þór/KA á komandi tímabili. Þetta eru þær Sandra Nabweteme frá Úganda (framherji), Miranda Smith frá Kanada (miðjumaður) og Colleen Kennedy frá Bandaríkjunum (kantmaður/framherji). Gengið hefur verið frá samningum við þær allar og er unnið að því að fá tilskilin leyfi hjá Útlendingastofnun þannig að KSÍ geti staðfest félagaskipti þeirra. Greint var frá þessu á Facebook síðu Þórs/KA rétt í þessu.
Þar segir:
Andri Hjörvar Albertsson þjálfari kveðst spenntur fyrir komandi tímabili og þessum nýju leikmönnum. „Með tilkomu þessara þriggja erlendu leikmanna fáum við reynslu inn í hinn unga leikmannahóp okkar og styrkjum ákveðnar stöður á vellinum. Leikmannahópurinn hefur tekið miklum breytingum eftir undanfarin þrjú tímabil, bæði með brotthvarfi erlendra leikmanna og innlendra sem ýmist hafa haldið utan í atvinnumennsku eða til félaga á suðvesturhorninu. Við horfum bjartsýn fram á komandi tímabil og hlökkum til að takast á við þær áskoranir sem bíða okkar. Við bindum miklar vonir við þessa þrjá erlendu leikmenn og vonumst til að þær geri okkar öflugu heimastelpur í Þór/KA enn öflugri,“ segir Andri Hjörvar.
Colleen Kennedy (1996) er bandarísk, kantmaður/framherji, frá Rockvale í Tenessee. Colleen spilaði í WPSL-deildinni með Alabama FC frá 2013 til 2019. Hún hóf jafnframt nám í háskólanum í Mobile í Alabama 2015 og spilaði með skólaliðinu næstu fjögur árin. Eftir það spilaði hún í úrslitakeppni með Nashville Rhythm 2019, en þá bauðst henni að fara til Svíþjóðar og spila með Sandviken IF, þar sem hún gerði sinn fyrsta atvinnusamning. Á árum sínum í Mobile-háskólanum vann hún til ýmissa viðurkenninga og verðlauna, bæði innan sinnar deildar og á landsvísu.
Hún kveðst hafa ákveðið að koma til Íslands af því að hún þekkir stelpur frá Bandaríkjunum sem hafa spilað hér og þær hafi talað vel um fólkið og landið og hafi náð að taka framförum sem leikmenn og það hafi höfðað til hennar.
Miranda Smith (1996) er kanadísk og spilar á miðjunni. Hún spilaði síðast í finnsku deildinni, en hún kom á miðju tímabili í fyrra til TPS þegar liðið hafði ekki unnið leik og þurfti að styrkja sig til að reyna að halda sér í deildinni. Það tókst reyndar ekki þótt liðið næði að landa sigrum eftir að Miranda kom þangað. Hún spilaði sjö leiki í Finnlandi. Áður hafði hún spilað í NCAA, 1. deild, með Memphis-háskólanum í Bandaríkjunum og svo heima í Kanada í tvö ár með liði Ottawa-háskóla. Þar vann hún USPORTS-meistaratitilinn 2018 og síðan KELME FISU, heimsmeistaratitil háskólaliða, í Kína árið 2019.
Miranda kveðst hafa heyrt talað vel um íslensku deildina og sé því spennt að koma hingað og spila, og ekki síður að njóta fegurðar landsins.
Sandra Nabweteme (1996) er landsliðskona frá Katwe í Úganda. Þar hóf hún að æfa knattspyrnu með strákum þegar hún var fimm ára og æfði með strákum þar til hún varð 14 ára, en þá hafði hún vakið athygli þjálfara og var boðið í Kawempe Muslim-skólann í Úganda þar sem hún spilaði bæði fyrir skólaliðið og meistaraflokksliðið þegar kvennadeildin var stofnuð 2015. Hún spilaði tvö tímabil í deildinni í Úganda. Á fyrra tímabilinu skoraði hún 17 mörk í níu leikjum og 23 mörk í 14 leikjum á síðari tímabilinu.
Árið 2016 hélt hún til Bandaríkjanna í háskólanám og lék með SWOSU-háskólaliðinu (Southwestern Oklahoma State University) næstu fjögur árin meðfram námi í eðlisverkfræði og stærðfræði. Hún hélt áfram að raða inn mörkum vestra, spilaði samtals 81 leik með SWOSU-liðinu, skoraði 78 mörk og átti 36 stoðsendingar. Hún átti meðal annars stóran þátt í að liðið vann GAC-deildina (Great American Conference) og vann til margvíslegra viðurkenninga á ferli sínum þar, bæði innan deildarinnar og á landsvísu.
Uppruni, ferill og afrek Söndru gera hana að virkilega áhugaverðum leikmanni og verður gaman að sjá hvernig hún mun standa sig í íslenska boltanum.