Fara í efni
Knattspyrna

Þórsarar sannfærandi á Dalvík í gær – MYNDIR

Þórsarar fagna eftir að Alexander Már Þorláksson kom þeim í 3:0 með skondnu hælspyrnumarki. Frá vinstri: Árni Elvar Árnason, Alexander Már Þorláksson, Kristófer Kristjánsson og Birkir Heimisson. Myndir: Þórir Tryggvason og Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu mjög sannfærandi sigur á Dalvík/Reyni í Lengjudeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi, eins og Akureyri.net sagði frá. Þór komst í 3:0 en lokatölur á Dalvíkurvelli urðu 3:1. 

Eftir mótbyr undanfarið var allt annað sjá Þórsliðið í gær. Leikmenn voru rólegir og yfirvegaðir, þeim leið vel á vellinum og engu líkara var en þungu fargi hefði verið létt af þeim.

Heil umferð fór fram í gær og að henni lokinni eru Þórsarar í níunda sæti með níu stig að loknum átta leikjum. Þeir eiga einn leik til góða á flest liðin og með sigri í honum færi liðið upp í miðja deild.
_ _ _

0:1 – ELMAR ÞÓR JÓNSSON
Elmar Þór Jónsson, sem kom inn í byrjunarliðið á ný, gerði fyrsta markið strax á þriðju mínútu. Birkir Heimisson fékk boltann á vítateigslínunni hægra megin, renndi honum áfram til vinstri þar sem Alexander Már lét hann fara til Elmars Þórs og hann sveiflaði sínum öfluga, vinstri fæti; smellhitti boltann á vítateigslínunni og hamraði hann í bláhorn marksins. Franko Lalic markvörður Dalvíkinga var ekki nálægt því að verja.

_ _ _
_ _ _

BIRKIR - RAFAEL - SIGFÚS
Þór komst í 2:0 á 25. mínútu. Birkir Heimisson tók aukaspyrnu einum 10 metrum utan teigs, sendi boltann yfir í vítateiginn vinstra megin þar sem framherjinn Rafael Victor var óvaldaður og hann átti fallegan skalla – en boltinn small í stönginni. Þaðan hrökk boltinn niður á markteiginn þar sem Sigfús Fannar Gunnarsson var mættur og skoraði í tómt markið.


_ _ _

ARON GÓÐUR
Aron Birkir Stefánsson, markvörður og fyrirliði Þórs, lék mjög vel í gær. Hann var óheppinn í tvígang nýverið og gerði slæm mistök en sýndi og sannaði í gær hve góður leikmaður hann er. Aron hafði ekki sérlega mikið að gera en þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum; sérstaklega minnisstætt er þegar framherjinn Abdul átti þrumuskot utan vítateigs að marki snemma í seinni hálfleik, boltinn stefndi efst í markhornið en Aron sveif eins og köttur og varði frábærlega. Hér að neðan lokar hann markinu vel þegar Abdul komst í gegn í fyrri hálfleiknum og skaut framhjá.


_ _ _

LALIC VARÐI VEL
Franko Lalic, markvörður Dalvíkinga, gerði einnig nokkrum sinnum mjög vel í leiknum. Varði til dæmis meistaralega þrumuskot af stuttu færi frá Birki Heimissyni í fyrri hálfleik. Hér Egill Orri Arnarsson í góðu færi seint í leiknum en Lalic varði mjög vel.


_ _ _

SKEMMTILEG TILÞRIF
Það var Alexander Már Þórisson sem gerði þriðja mark Þórs á 71. mín. Sigfús Fannar lék hratt fram völlinn með boltann, sendi á Kristófer Kristjánsson sem sendi inná teig þangað sem Sigfús var kominn, hann hitti ekki boltann á markteignum en Alexander Már nýtti sér það; sneri baki í markið en tók það til bragðs að reyna hælspyrnu sem svínvirkaði; Lalic áttaði sig ekki tímanlega og boltann rann í hornið. Þarna var Dalvíkurvörnin illa á verði. - Hér að neðan má sjá þetta skondna mark frá tveimur sjónarhornum.

Myndir: Þórir Tryggvason


_ _ _

HEIMAMENN SKORA
Matheus Bissi da Silva minnkaði muninn fyrir Dalvík/Reyni á 78. mín. Áki Sölvason tók hornspyrnu frá vinstri og Bissi, eins og hann er kallaður, var lítt eða ekki valdaður og skallaði í markið.


_ _ _

MIKILVÆGUR SIGUR
Stigin þrjú sem Þórsarar nældu í með sigrinum eru afar mikilvæg í baráttunni. Uppskeran hefur verið undir væntingum fram að þessu en góður bragur var á liðinu í gær, sigurinn afar sanngjarn og ætti að geta gefið mönnum von um betri tíð með blóm í huga. Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs, gefur hér ungum Þórsara fimmu að leikslokum.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna