Fara í efni
Knattspyrna

Þór/KA tekur á móti Tindastóli í Boganum

Hulda Ósk Jónsdóttir og Emelía Ósk Krüger höfðu ástæðu til að kætast í leik liðanna í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Annar leikur Þórs/KA og Tindastóls á innan við viku fer fram í Boganum í kvöld og hefst kl. 20:15. Leikurinn er í 6. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu.

Samkvæmt upphaflegri leikjaniðurröðun átti leikurinn að vera heimaleikur Tindastóls og spilast á morgun kl. 16, en vegna vallaraðstæðna á Sauðárkróki, skemmda sem urðu í leysingum í lok apríl, geta Sauðkrækingar ekki spilað heimaleiki sína þar, enn sem komið er. Eins og fólki er kunnugt mættust þessi lið í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar á Dalvíkurvelli síðastliðinn þar sem Þór/KA hafði 2-1 sigur, en nú mætast liðin í Bestu deildinni.

Þór/KA vann 5-0 sigur á Tindastóli á Þórsvellinum, VÍS-vellinum, í fyrrasumar í eftirminnilegum leik þar sem Sandra María Jessen handleggsbrotnaði í fyrri hálfleik, en okkar konur keyrðu yfir Stólana í seinni hálfleiknum. Liðin skildu síðan jöfn í markalausu jafntefli í lok sumars á Sauðárkróki. 

Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar með 12 stig eftir fimm umferðir, en Tindastóll í 5. sætinu með sex stig.