Fara í efni
Knattspyrna

Þór/KA langt frá sínu besta og FH vann

FH-ingurinn Thelma Lóa Hermannsdóttir í dauðafæri í lok uppbótartímans, eftir að hún náði boltanum við miðlínu í annað skipti á stuttum tíma og óð fram völlinn. Shelby Money varði bæði skotin - frábærlega í þetta skipti. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir til vinstri. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 1:0 fyrir FH á heimavelli í kvöld í Bestu deild kvenna í knattspyrnu og Hafnarfjarðarliðið er þar með aðeins tveimur stigum á eftir Stelpunum okkar á stigatöflunni; Þór/KA er í þriðja sæti með 21 stig en FH er komið með 19.

Þór/KA byrjaði mun betur, ógnaði marki gestanna nokkrum sinnum en hafði ekki erindi sem erfiði. Sandra María Jessen komst næst því að skora en sendi boltann naumlega framhjá úr ákjósanlegu færi þegar hálftími var liðinn. 

Það var Ída Marín Hermannsdóttir sem gerði eina mark leiksins þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Hún brunaði inn í vítateiginn hægra megin, Agnes Birta Stefánsdóttir braut á henni og Sigurður Þrastarson dómari, sem var á næstu grösum, blés umsvifalaust í flautuna og benti á vítapunktinn.

Ída Marína var öryggið uppmálað og skoraði með firnaföstu skoti alveg út við stöng.

Óhætt er að segja að leikurinn var ekki mikið fyrir augað. Hart var barist, ekki er hægt að saka leikmenn um að hafa ekki lagt sig fram, en mikil þreytumerki voru á liði Þórs/KA eftir þétta dagskrá undanfarið. Eftir góðan upphafskafla í kvöld vantaði nánast allt það fína sem stelpurnar bjóða svo oft upp á; hraða, fallegt spil og hugmyndaauðgi í sóknarleiknum.

Tveir mjög erfiðir leikir í síðustu viku sátu augljóslega enn í Þórs/KA stelpunum og skyldi engan undra. Andlega þreytan er væntanlega enn meiri en ella fyrst báðir leikirnir, gegn tveimur bestum liðum landsins – Breiðabliki í bikarkeppninni og Val í Bestu deildinni – töpuðust á grátlegan hátt á síðustu stundu.

Enginn í heimaliðinu náði að sýna sitt rétta andlit í kvöld þegar á heildina er litið nema markvörðurinn, Shelby Money, sem varði í tvígang frá Thelmu Lóu Hermannsdóttur í uppbótartíma. Þór/KA lagði þá allt í sölurnar til þess að jafna og Thelma komst í bæði skiptin ein í gegn eftir að hafa náð boltanum við miðlínuna.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna
_ _ _

MUNAÐI MJÓU
Besta færi Þórs/KA á 30. mín. Sandra María setti boltann hárfínt framhjá fjærstönginni af markteignum vinstra megin eftir mjög góða fyrirgjöf Huldu Óskar Jónsdóttur af hægri kantinum. 


_ _ _

VÍTI OG MARK
Örlagastundin á 40. mínútu. Sigurður dómari Þrastarson bendir á vítapunktinn; Agnes Birta Stefánsdóttir, lengst til hægri, braut á Ídu Marín Hermannsdóttur sem er við hið hennar og Ída skoraði sjálf úr vítaspyrnunni af miklu öryggi. Boltinn söng í netinu alveg út við stöng án þess að Shelby Money ætti nokkra möguleika á að komast fyrir boltann,