Fara í efni
Knattspyrna

Þór/KA: Arna og Heiða bestar, María efnilegust

Arna Sif Ásgrímsdóttir, Heiða Ragney Viðarsdóttir og María Catharina Ólafsdóttir Gros. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Arna Sif Ásgrímsdóttir og Heiða Ragney Viðarsdóttir voru bestu leikmenn fótboltaliðs Þórs/KA í sumar að mati þjálfaranna. Ekki var hægt að gera upp á milli þeirra þannig að báðar hljóta nafnbótina. María Catharina Ólafsdóttir Gros var efnilegasti leikmaður liðsins, sem endaði í 7. sæti efstu deildar Íslandsmótsins, Pepxi Max deildarinnar.

Lokahóf var ekki haldið hjá Þór/KA og Hömrunum frekar en öðrum, vegna kórónuveirufaraldursins, og verðlaunaafhendingar hafa ekki farið fram en val þjálfaranna var tilkynnt í gær.

Þær bestu spiluðu mest allra leikmanna Þórs/KA á árinu, Arna Sif flesta leiki, en Heiða Ragney flestar mínútur.

Arna tók þátt í öllum leikjum liðsins í sumar, í Kjarnafæðismótinu, Lengjubikar, Mjólkurbikar og Pepsi Max-deildinni. Hún spilaði 18 leiki í deild og bikar og skoraði þrjú mörk. Arna Sif lék á árinu sinn 200. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA (deild, bikar, Evrópa) og sinn 200. leik í efstu deild. 

Heiða Ragney spilaði 18 leiki í deild og bikar á árinu og skoraði eitt mark. Hún spilaði alla leiki liðsins á árinu, utan einn, og spilaði flestar mínútur allra leikmanna.  Heiða á að baki 91 leik (þrjú mörk) í meistaraflokki, alla með Þór/KA.

María Catharina Ólafsdóttir Gros, sem fædd er 2003, efnilegasti leikmaður hjá Þór/KA í sumar spilaði 18 leiki í deild og bikar á árinu og skoraði þrjú mörk. María Catharina hefur spilað 37 leiki og skorað sex mörk í meistaraflokki.