Fara í efni
Knattspyrna

Þór og ÍBV eigast við í Lengjudeildinni í dag

Sveinn Fannar Gunnarsson, sem skorar hér gegn Dalvík/Reyni á Dalvík í sumar, gerði mark Þórs í 1:1 jafntefli við ÍBV í Eyjum í maí. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar taka á móti Vestmannaeyingum í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Flautað verður til leiks á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) klukkan 15.00.

Liðin skildu jöfn, 1:1, í hörkuleik í Eyjum í fyrri umferðinni 20. maí. Þá jafnaði Sigfús Fannar Gunnarsson metin 10 mínútum fyrir leikslok með glæsilegu marki eftir að heimamenn komust yfir snemma í seinni hálfleik. Sigfús hafði leyst Ingimar Arnar Kristjánsson af hólmi þegar hann meiddist í fyrri hálfleik.

Bæði lið luku leik í Eyjum í vor með 10 menn á vellinum. Eyjamaðurinn í Þórsliðinu, Jón Hökull Hjaltason – sem í vikunni var lánaðar til Þróttar í Vogum – fékk að líta gula spjaldið öðru sinni eftir hálftíma leik og þar með rautt. Jafnt varð í liðum fljótlega eftir að ÍBV komst yfir, þá var Oliver Heiðarsson rekinn af velli þegar honum var einnig sýnt gult spjald í annað sinn fyrir að fara harkalega í Aron Birki markvörð Þórs.

Þórsarar eru í sjöunda sæti með 17 stig að loknum 14 leikjum en ÍBV er í þriðja sæti með 22 stig, einnig eftir 13 leiki.

Níu umferðir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni en að 22 leikjum loknum verður ljóst hvaða lið vinnur sér sæti í Bestu deildinni næsta sumar, það efsta í Lengjudeildinni. Þá liggur einnig ljóst fyrir hvaða lið verða í 2. - 5. sæti en þau fjögur fara í umspil um hitt lausa sætið í efstu deild næsta sumar.

Staðan í deildinni