Fara í efni
Knattspyrna

Tæplega hálf öld á milli aðstoðardómara!

Áhugavert dómaratríó. Frá vinstri: Stefán Aðalsteinsson, Aðalsteinn Tryggvason og Leyla Ósk Jónsdóttir. Mynd af Facebook síðu KSÍ.

Áhugavert dómaratríó starfaði við leik FHL/Einherja og Tindastóls í kvennadeild Kjarnafæðismótsins í knattspyrnu nýverið: tæplega hálfrar aldar aldursmunur var á aðstoðardómurum leiksins! Bent er á þetta á Facebook síðu Knattspyrnusambands Íslands.

Aðalsteinn Tryggvason var aðaldómari leiksins og honum til aðstoðar þau Stefán Aðalsteinsson og Leyla Ósk Jónsdóttir.

„Það sem gerir þetta dómarateymi áhugavert er að tæp hálf öld er á milli aðstoðardómaranna. Leyla Ósk er nýorðin 14 ára og var hún að dæma sinn þriðja leik í Kjarnafæðismótinu og á hún svo sannarlega framtíðina fyrir sér í dómsgæslu. Stefán verður 63 ára á árinu og er hann hvergi nærri hættur að dæma. Stefán hefur dæmt frá 17 ára aldri eða í 47 ár og telur hann leikina sína komna yfir 1500 talsins!“ segir á Facebook síðu KSÍ.

„Þegar Leyla fæddist, árið 2009, var Stefán búinn að dæma í 31 ár. Hjá bæði Leylu og Stefáni er dómgæsla í fjölskyldunni því Páll, sonur Stefáns, er einnig dómari og faðir Leylu, Zakír Jón Gasanov, er einnig dómari,“ segir þar og klikkt er út með þessari setningu: „Þetta er eitt dæmi um það hvernig hægt er að stunda knattspyrnu og vera tengdur íþróttinni árum saman þrátt fyrir að vera ekki leikmaður!“