Fara í efni
Knattspyrna

Sveinn Elías hættur og líklega Jónas Björgvin

Sveinn Elías í leik gegn Fram á Þórsvellinum í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði Þórsliðsins síðustu ár, hefur ákveðið að láta gott heita og setjast í hinn helga stein sem knattspyrnumaður.

Sveinn Elías hóf ferilinn með meistaraflokki Leifturs/Dalvíkur 2003, lék með KA frá 2006 til 2008 en hefur verið á mála hjá Þór síðustu 12 leiktíðir. Hann á að baki 446 leiki í meistaraflokki skv. talningu KSÍ, þar af 329 í deildum, bikar- og Evrópukeppni og hefur gert 60 mörk á þeim vettvangi, en mörkin eru 91 þegar allt er talið. Sveinn Elías er 34 ára.

Langflestir leikir Sveins voru í B-deild, 203, og mörkin 30, en hann tók þátt í 60 leikjum í efstu deild og gerði 13 mörk.

Jónas líka hættur?

Jónas Björgvin Sigurbergsson, einn bestu leikmanna Þórs síðustu ár, er mjög líklega einnig hættur, að minnsta kosti í bili. Hann hugðist ekki vera með í sumar sem leið, vegna anna í námi, en dró fram skóna og var með í átta deildarleikjum og tveimur í bikarkeppninni. Jónas varð 26 ára í sumar.

Jónas hefur tekið þátt í 141 leik með Þór, í deildum og bikar, og gert 14 mörk.

Á myndinni eru þeir félagar í varnarvegg í einum leikja sumarsins, Sveinn Elías lengst til vinstri en Jónas á hinum endanum.