Fara í efni
Knattspyrna

Stelpurnar í Þór/KA töpuðu fyrir Víkingi

Bergþóra Sól Ásmundsdóttir, til vinstri, fagnar innilega ásamt Shaina Ashouri eftir að hún gerði fyrra mark Víkings á Þórsvellinum í kvöld. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 2:0 fyrir Víkingi í Bestu deildinni í knattspyrnu á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) í kvöld. Stelpurnar okkar fengu nokkur tækifæri til að skora og rétt áður en gestirnir gerðu fyrra mark leiksins munaði til dæmis aðeins hársbreidd að Þór/KA kæmist yfir. Liðið var hins vegar langt frá sínu besta í kvöld og leikurinn hlýtur að teljast einn sá slakasti í sumar.
_ _ _

ÞÓR/KA NÁLÆGT ÞVÍ AÐ SKORA
Eftir laglega sókn á 39. mínútu átti Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir mjög gott skot frá vítateig en Birta Guðlaugsdóttir markvörður Víkings kom í veg fyrir mark; kom við boltann sem small þó í markslánni og hrökk þaðan út í teig. Eftir klafs í teignum náði Karen María Sigurgeirsdóttir ágætu skoti en boltinn smaug hárfínt framhjá stönginni.


_ _ _

VÍKINGUR SKORAR
Oft er stutt á milli hláturs og gráts ... Tveimur mínútum og níu sekúndum eftir að Þór/KA var nálægt því að skora, eins og lýst er hér að ofan, komust gestirnir yfir! Selma Dögg Björgvinsdóttir sendi boltann inn í vítateig frá hægri, Bergþóra Sól Ásmundsdóttir var ákveðnari en Hulda Björg Hannesdóttir og hamraði boltann í netið.


_ _ _

Það var svo með síðustu spyrnu leiksins að Víkingur komst í 2:0. Lið Þórs/KA reyndi hvað það gat að jafna en gestirnir náðu hraðri sókn og Linda Líf Boama skoraði.

Þór KA er enn í þriðja sæti, hefur nú 24 stig en Víkingur er kominn upp í fjórða sæti með 19 stig. Bæði lið hafa lokið 13 leikjum. FH er einnig með 19 stig en á leik við Þrótt á morgun til góða.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna