Fara í efni
Knattspyrna

Skipulagsbreytingu við Miðholt mótmælt

Skjáskot úr tillögu Nordic Office of Architecture um skipulag og útlit bygginga á lóðunum nr. 1-9 við Miðholt. Hér er horft frá Langholti í norðaustur eftir Miðholtinu.

Íbúar við Miðholt mótmæla margir hverjir harðlega áformuðum skipulagsbreytingum sunnan götunnar vegna byggingar fjölbýlishúsa á lóðum 1-9. Fjölgun íbúða um 50%, hækkun um eina hæð, skert sýn til suðurs, umferðarþungi og fleira er það sem hugnast íbúum við Miðholt illa að því er fram kemur í athugasemdum við tillögu um skipulagsbreytingar á svæðinu.

Akureyrarbær auglýsti í byrjun júlí í fyrra tillögu að breytingu á aðalskipulagi sem gerði ráð fyrir að heimila þriggja hæða byggingar, í stað tveggja áður, auk kjallara á lóðunum Miðholti 1-9.

Tölvuteiknuð loftmynd af væntanlegum byggingum við Miðholt 1-9. Nær má sjá þau hús sem fyrir eru í Miðholti og Stafholti, en fjær eru íbúðablokkirnar tvær við Undirhlíð. Efst til hægri er bílastæðið við Bónus. Skjáskot úr tillögu Nordic Office of Architecture.

Athugasemdir bárust frá 20 íbúum þar sem þessum áformum er harðlega mótmælt. Margar athugasemdanna eru samhljóða og með sama orðalagi, en þrjár þeirra eru ítarlegri og komið inn á fleiri atriði. Auk framangreindra atriða lýsa nokkrir þeirra sem gera athugasemdir við skipulagsbreytinguna ábyrgð á hendur Akureyrarbæ ef af þessum framkvæmdum skyldi hljótast tjón á eignum sem næst standa. Þar er vísað í hve djúpt er niður á fast á þessu svæði og að afleiðingarnar af framkvæmdum gætu verið ófyrirsjáanlegar.

Breyta aðkomu í bílakjallara

Í öllum athugasemdunum er fjölgun íbúða sem leyfð er með áformaðri breytingu um 50%, úr 40 í 60 íbúðir, sem og hækkun bygginga úr tveimur hæðum í þrjár mótmælt. Þá lýsa íbúar áhyggjum vegna mikillar aukningar á umferð um þessa fámennu götu, en það er eina atriðið í mótmælum íbúanna þar sem ætlunin er að breyta í samræmi við athugasemdirnar. 

Skipulagsráð tók fyrir í liðinni viku breytta tillögu þar sem komið er til móts við athugasemdir vegna umferðar sem fylgir fjölgun íbúða á þessu svæði. Ráðið tekur jákvætt í þá tillögu, en þar er gerð sú breyting að inn- og útkeyrsla í bílakjallara verði úr Langholti, en ekki úr Miðholtinu. Þannig þurfi umferð væntanlegra íbúa í Miðholti 1-9 ekki að fara inn í sjálfa götuna nema að hluta því inn- og útkeyrsla ofanjarðar að húsunum sjálfum er áfram úr Miðholtinu.

Hér má sjá tillögu að breytingu til að koma til móts við ábendingar íbúa um mikla aukningu umferðar um Miðholt, sem er fámenn íbúðargata, með því að færa innakstur í bílakjallara í Miðholti 1-9 úr Miðholti yfir í Langholt.

Nokkrir punktar úr mótmælum og athugasemdum íbúanna:

  • Veit að athugasemdirnar skipta engu. Mörg þeirra sem sendu inn athugasemdir notuðu sama textann, en einn bætir við setningu sem lýsir vonleysi af hans hálfu um að athugasemdirnar skipti einhverju máli. Hann skrifar: „Ég veit að athugasemdir íbúa skipta ykkur engu, en samt vil ég mótmæla þessu skipulagsslysi.“
  • Gagnrýniverð stjórnsýsla og hagsmunum íbúa fórnað fyrir hagsmuni annarra. Íbúar sem keyptu sína eign fyrir tveimur árum sáu þá að svæðið hafði nýverið farið í gegnum skipulagsbreytingu þar sem gert var ráð fyrir tveggja hæða byggingum á svæðinu og að hámarki 40 íbúðum. „Það er mjög gagnrýniverð stjórnsýsla að breyta skipulagi ört og mikið og að því er virðist einungis til að koma til móts við mögulega framkvæmdaraðila en ekki með hagsmuni íbúa hverfisins í huga. Íbúar í grónum hverfum eiga fullan rétt á að búa við fyrirsjáanleika og öryggi og að útliti og lífsgæðum hverfisins sé ekki fórnað fyrir hagsmuni annarra,“ skrifa þessir íbúar.
  • Rannsókn á skuggahrifum. Farið er fram á að nákvæm skoðun verði gerð á skuggaáhrifum og lokun á útsýni sem hlytist af nýju skipulagi.
  • Ófyrirséð áhrif vegna dýptar niður á fast. Bent er á að órannsakað sé hvaða áhrif umræddar byggingar hafi á undirstöður og stöðugleika þeirra húsa sem næst eru þar sem afar djúpt sé niður á fast. Í því sambandi er bent á að illa hafi gengið að halda spennistöð sem er þarna í nágrenninu láréttri og megi sjá að hún hafi sigið aftur eftir afréttingu.
  • Enn fleiri fara yfir fjölfarnar umferðargötur. Enn er fjölgað í hópi þeirra sem þurfa að fara yfir þugnar umferðargötur, til dæmis á leið í skóla, og rannsaka þurfi áhættur og aðstæður við Þjóðveg 1 (Hörgárbraut) í því sambandi. Börn á þessu svæði leggi ekki lykkju á leið sína til að fara í undirgöng sem eru nokkuð frá.
  • Lífsgæði tekin frá einum hóp til að afhenda öðrum. Þá sjá íbúarnir eftir opna svæðinu þar sem eru „há tré og fuglalíf, leiktæki fyrir börn og opið svæði sem nóg hefur verið þrengt að. Við erum afar óánægð með að gengið verði á þessi svæði frekar en orðið er. Rökstyðja þarf vandlega ef taka á marga þætti lífsgæða frá einum hóp til að afhenda öðrum; lið fyrir lið.“
  • Taka beri ákvörðun með íbúum svæðisins. „Rökstyðja þarf vandlega og taka ákvörðum með íbúum svæðis og efna eftir atvikum til íbúakosninga ef taka á marga þætti lífsgæða frá íbúum hverfis til að afhenda öðrum eins og gera á í þessu tilfelli og mótmæli ég því þessari skipulagsbreitingu,“ skrifar einn íbúinn.
  • Breyttar forsendur fyrir búsetuvali. „Þeir sem valið hafa sér búsetu með tilteknum skilyrðum og búið þar til fjölda ára eiga ekki að þurfa að láta yfir sig ganga gjörbreytingu á öllu nærumhverfi og aðstæðum sem sóst var eftir með upphaflegu búsetuvali.“